Sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshreppur auglýsir nú til sölu byggingarrétt á 6 þjónustulóðum í nýjum miðkjarna á Borg í Grímsnesi.
Um er að ræða lóðir fyrir fjölbreytta þjónustu, verslun, eldsneytisstöð, veitingastaði, hraðhleðslu ásamt möguleika á íbúðum og 70 herbergja hótellóð við Gullna hringinn.
Áhersla verður lögð á að koma upp hraðhleðslustöð, eldsneytissölu og smávöruverslun til að þjónusta þá 2.500 bíla sem fara um svæðið á hverjum degi, til viðbótar við þá 6–10 þúsund íbúa og frístundahúsaeigendur sem dvelja í sveitarfélaginu á hverjum tíma.
Langflestir ferðamenn sem heimsækja landið fara um svæðið ásamt því að Grímsnes- og Grafningshreppur er stærsta frístundabyggð landsins.
Einnig er til sölu byggingarréttur á 11 athafnalóðum við Sólheimahring.
Um er að ræða nýtt 52 lóða athafnasvæði hefur verið skipulagt við Sólheimaveg, rétt suður af Borg. Þar er gert ráð fyrir hreinlegum léttum iðnaði og ýmiss konar rekstri.
Uppbyggingu svæðisins verður skipt upp í áfanga, til að stuðla að hagkvæmni og heildaryfirbragði byggðarinnar.
Nýja athafnasvæðið felur í sér mikil tækifæri fyrir framtakssamt fólk sem vill láta verkin tala, bæði núverandi íbúa og atvinnurekendur framtíðarinnar.
Helstu upplýsingar um lóðirnar má sjá á borgisveit.gogg.is.