Home Fréttir Í fréttum Reitir og Ís­lenskar fast­eignir byggja 5 hjúkrunar­heimili

Reitir og Ís­lenskar fast­eignir byggja 5 hjúkrunar­heimili

56
0
Sveinn Björnsson, framkvæmdastjóri Íslenskra fasteigna, Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita, Ingveldur Ásta Björnsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Reitum og Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunar hjá Reitum. Ljósmynd: Aðsend mynd

Heildarumfang samstarfsins gæti numið 24 til 36 milljörðum króna.

<>

Reitir fasteignafélag og fasteignaþróunarfélagið Íslenskar fasteignir hafa undirritað rammasamning um uppbyggingu fimm hjúkrunarheimila með samtals um 400-600 rýmum á næstu árum.

Heildarumfang samstarfsins gæti numið 24 til 36 milljörðum króna, að því er segir í tilkynningu Reita til Kauphallarinnar.

Samkvæmt samkomulaginu munu Reitir fjármagna framkvæmdir hjúkrunarheimilanna og verður eigandi þeirra, en Íslenskar fasteignir mun hafa umsjón með hönnun þeirra og annast byggingarstjórnun á framkvæmdatíma.

Fyrsta hjúkrunarheimilið verði tilbúið 2026
Samhliða rammasamningi hafa Reitir og Íslenskar fasteignir gert með sér samkomulag um þróun og byggingu fyrsta hjúkrunarheimilisins.

Um er að ræða allt að 7.000 fermetra byggingu með 80 til 100 rýmum sem hönnuð verður samkvæmt viðmiðum heilbrigðisráðuneytisins. Reiknað er með að uppbyggingu hjúkrunarheimilisins verði lokið 2026.

Nýtt byggingafélag verður stofnað um uppbyggingu hjúkrunarheimilisins sem verður í eigu samningsaðila. Að uppbyggingu lokinni munu Reitir kaupa fasteignina.

„Með samningnum er stigið stórt skref í þeirri stefnu félagsins að taka þátt í mikilvægri innviðauppbyggingu á Íslandi og liður í þeirri stefnu okkar að stækka eignasafn Reita,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.

Guðni vísar í tilkynningunni til fyrirætlana stjórnvalda er varða öldrunarþjónustu, nánar tiltekið til skýrslu vinnuhóps Fjármála- og Heilbrigðisráðuneytis um breytt fyrirkomulag fasteigna vegna hjúkrunarheimila. Þar er áætluð þörf á byggingu a.m.k. 90-100 hjúkrunarrýma á ári fram til ársins 2034.

„Við hjá Reitum fögnum tækifærinu til að leggja lóð á vogarskálarnar í þessu samfélagslega mikilvæga verkefni og finnum til ábyrgðar, enda aðkallandi að fjölga hjúkrunarrýmum hratt en ekki síður að vanda vel til verka.“

Sveinn Björnsson, framkvæmdastjóri Íslenskra fasteigna, segir að framundan sé náið samstarf við ríki og sveitarfélög um val á staðsetningum og hönnun hjúkrunarheimilanna.

Heimild: Vb.is