Home Fréttir Í fréttum Skrið á hlutina við nýbyggingu eldri borgara á Egilsstöðum

Skrið á hlutina við nýbyggingu eldri borgara á Egilsstöðum

50
0
Teikning af nýja fjölbýlishúsinu eins og það kemur til með að líta út á endanum. Verkið hingað til sóst vel þó lægð hafi verið á framkvæmdum um tíma í vetur.

Ekki aðeins eru framkvæmdir við nýtt fjölbýlishús fyrir eldri borgara að Miðvangi á Egilsstöðum komnar á góðan rekspöl eftir nokkra lægð í vetur heldur og eru aðstandendur hugsanlega að ná góðum samningum við aðila sem geta lokið við verkið.

<>

Þetta staðfestir Sigurjón Bjarnason, einn forsprakka Sigurgarðs ehf. sem stendur að byggingunni en verkefnið er óvenjulegt og sérstakt sökum þess að það er hópur eldri borgara sem eru sjálfir að standa að fjármögnun og byggingu hússins.

Framundan hjá félaginu er nú hluthafafundur að viku liðinni auk þess sem líða fer að því að hluthafarnir fari að velja sér tiltekna íbúð í húsinu. Enn eru lausir hlutir í félaginu en slíkum hlut fylgir réttur til þáttöku í byggingunni.

„Nú er kominn góður gangur í þetta og við farin að nálgast einhverja samninga um framhaldið þannig að allt er að þokast í rétta átt. Við höfum verið að vinna mánuðum saman nú að því að finna aðila sem geta klárað húsið á lágmarksverði ef svo má að orði komast án þess þó að hönnuninni sé breytt að miklu leyti. Húsið er vitaskuld hannað af þeim sem þarna vilja búa og það má ekki breyta mikið frá teikningum.“

Úthlutunarfundur í næsta mánuði

Aðspurður um hversu margir hlutir í Sigurgarði séu nú lausir segir Sigurjón það ekki alveg liggja fyrir. Margir séu að velta málunum fyrir sér en einhver hópur sé líka tvístígandi meðal annars af heilsufarsástæðum.

„Það verður væntanlega húsfundur í næsta mánuði þar sem við förum yfir þá möguleika sem til staðar eru í samningagerð og slíku. Þar kemur koma í ljós nákvæmlega hversu margir hlutir eru lausir og í kjölfar þess í næsta mánuði verður úthlutunarfundur þar sem hægt verður að skrá sig fyrir hlut eða hætta við eftir atvikum.“

Heimild: Austurfrett.is