Home Fréttir Í fréttum Tímamót í allri þjónustu við fatlaða á Reyðarfirði

Tímamót í allri þjónustu við fatlaða á Reyðarfirði

38
0
Fyrsta skrefið tekið seinnipart í gær. Frá vinstri: Róbert Óskar Sigurvaldason framkvæmdaaðili, Ragnar Sigurðsson formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúarnir Þuríður Lilly Sigurðardóttir og Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir. Mynd: Austurfrett.is

Síðdegis í gær var formlega tekin skóflustunga að nýjum búsetukjarna fyrir fólk með fötlun að Búðareyri 10 á Reyðarfirði en sú staðsetning var sérstaklega fyrir valinu þar sem nálægð er mikil við alla helstu nauðsynlega þjónustu.

<>

Einar sex íbúðir verða í búsetukjarnanum fyrir skammtímavistun fatlaðra þegar framkvæmdum lýkur en auk þess stórt starfsmannarými, stór setustofa og tækjageymsla.

Fjarðabyggð mun reka alla þjónustu í kjarnanum þegar þar að kemur en verður ekki eigandi hússins sjálfs. Íbúarnir munu sjálfir leigja íbúðirnar. Hugsanlegt er að þjónusta í húsinu verði samþætt að einhverju leyti með sveitarfélaginu Múlaþingi í framtíðinni.

Verktakar af Austurlandi

Fjarðabyggð hefur samið við R101 ehf. um hönnun og umsjón byggingarinnar, en það mun síðar semja við verktaka í Fjarðabyggð um framkvæmdirnar sjálfar.

Róbert Óskar Sigurvaldason, forsvarsmaður R101 ehf., segir stefnuna vera að koma húsinu upp og ljúka lóðavinnu fyrir veturinn svo hægt verði að klára verkið innandyra yfir vetrartímann.

Fyrirtækið hefur ágæta reynslu nú þegar af byggingarverkefnum á Austurlandi. Áætlað er að hefjast handa innan næstu tveggja til þriggja vikna.

„Við erum að gefa okkur svona tólf mánuði eða svo til að ljúka smíðinni endanlega og ætlum að vanda til allra verka. Húsið er einingahús úr einingum sem koma erlendis frá og þær á leiðinni til okkar. Við notum auðvitað góða verktaka úr héraðinu og við staðráðnir í að standa við allar tímasetningar verksins.“

Búðareyri 10 er lóðin við hlið heilsugæslunnar í bænum en í bígerð er í framtíðinni að stækka heilsugæsluna þannig að að því loknu verður sú og nýi búsetukjarninn samhliða á gróðursælum stað í miðbænum. Stefnan er einmitt að reyna eftir megni að vernda þau tré og gróður sem finnst á og við lóðina í dag.

Stundin stór

Að mati formanns bæjarráðs, Ragnars Sigurðssonar, er stundin stór fyrir bæði Fjarðabyggð og Austurland allt og ekki síður stór áfangi í byggingarsögu bæjarins.

„Þetta eru mikil tímamót í allri þjónustu við fatlað fólk og beinlínis gjörbyltir þeirri þjónustu. En ekki síður tímamót í byggingarsögu Reyðarfjarðar því þetta mun breyta landslaginu hér og verður mikil prýði að þessu húsi hér meðfram aðalgötu bæjarins.“

Heimild: Austurfrett.is