Home Fréttir Í fréttum Samherji hyggst reisa vinnubúðir fyrir uppbyggingu landeldis á Reykjanesi

Samherji hyggst reisa vinnubúðir fyrir uppbyggingu landeldis á Reykjanesi

123
0
Samherji hyggst reisa 40 þúsund tonna landeldi á Reykjanesi. RÚV – Birgir Þór Harðarson

Samkomulag milli Reykjanesbæjar og Samherja um uppbyggingu fyrirtækisins á landeldi á Reykjanesi er tilbúið til undirritunar. Þar er gert ráð fyrir að flytja þurfi inn stóran hluta þess starfsfólks sem vinnur við framkvæmdirnar.

<>

Áætlað er að á bilinu 3-400 manns starfi við uppbyggingu fyrirhugaðs landeldis Samherja á Reykjanesi, skammt frá Reykjanesvirkjun. Stór hluti þess hóps kemur líklega erlendis frá.

Reykjanesbær ætlar því að heimila uppsetningu tímabundinna svefn- og vinnubúða starfsmanna á framkvæmdatíma, að því er segir í samkomulagi milli Reykjanesbæjar og Samherja um uppbyggingu landeldisins sem fréttastofa hefur undir höndum.

„Gera má ráð fyrir að flytja þurfi drjúgan hluta þessa vinnuafls til Suðurnesja, væntanlega erlendis frá, til þess að sinna þessari uppbyggingu þar sem laust vinnuafl á svæðinu sé takmarkað en slíkt kallar á búsetuúrræði auk annarrar aðstöðu.“

Samkomulagið er tilbúið til undirritunar. Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri landeldis hjá Samherja, segir í samtali við fréttastofu að undirritun fari fram á næstu dögum eða vikum. Hann segir ekki hægt að meta hversu margt starfsfólk þurfi að flytja inn á þessu stigi máls og þar af leiðandi er óvíst hversu stórar vinnubúðirnar verða.

„Það er bara hluti af undirbúningi okkar að vera tilbúnir til að bregðast við aðstæðum sem geta komið upp. Þetta er mjög stór framkvæmd. Við teljum að það sé líklegt að það þurfi að flytja inn vinnuafl og þess vegna öflum við okkur leyfis til að hafa vinnubúðir.“

Fallið frá sérstöku innviðagjaldi

Áform fyrirtækisins um uppbyggingu landeldis á Reykjanesi voru kynnt fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar og í kjölfarið á opnum fundi með íbúum árið 2021. Gert er ráð fyrir að uppbygging landeldisins verði í þremur áföngum og að framleiðslugetan verði alls fjörutíu þúsund tonn á ári.

Ekki er ljóst hvenær framkvæmdir hefjast. „Til að gera hluti vel þarf að undirbúa vel og framkvæmdirnar hefjast þegar við erum búnir að tryggja fjármögnun og við erum að vinna að því,“ segir Jón Kjartan.

Í ljósi þess að uppbygging Samherja var fyrirhuguð áður en sérstakt gjald vegna innviða- og byggingarréttar var samþykkt af bæjarstjórn Reykjanesbæjar, verða slík gjöld ekki innheimt af sveitarfélaginu vegna framkvæmdarinnar. Nýja gjaldið nemur 6.000 krónum á hvern byggðan fermetra atvinnuhúsnæðis.

Greiðir sveitarfélaginu 200 milljónir

Samherji greiðir sveitarfélaginu aftur á móti samtals 200 milljónir króna vegna uppbyggingarinnar. Fyrirtækið greiðir sveitarfélaginu 50 milljónir króna 30 dögum eftir að slátrun hefst á afurðum úr fyrsta áfanga fiskeldisins. Framleiðslugeta fyrirtækisins í fyrsta áfanga er tíu þúsund tonn.

Þegar öðrum áfanga framkvæmda er lokið eykst framleiðslugetan um tíu þúsund tonn til viðbótar. 30 dögum eftir að slátrun hefst á afurðum úr öðrum áfanga mun fyrirtækið greiða sveitarfélaginu aðrar 50 milljónir.

Þegar landeldisstöðin verður komin í full afköst að loknum þriðja áfanga eykst framleiðslugetan um 20 þúsund tonn til viðbótar og verður því 40 þúsund tonn. 30 dögum eftir að slátrun hefst á afurðum úr þriðja áfanga greiðir Samherji Reykjanesbæ 100 milljónir króna.

Allar þessar upphæðir taka mið af byggingarvísitölu og miðast við grunnvísitölu í þeim mánuði þegar byggingarleyfi vegna framkvæmda er gefið út til þess mánaðar þegar greiðslan er innt af hendi.

Fyrirtækið byggir upp innviði á svæðinu

Í samkomulaginu kemur einnig fram að fallið er frá gatnagerðargjöldum vegna framkvæmdanna þar sem fyrirtækið ber sjálft ábyrgð á innviðauppbyggingu í tengslum við framkvæmdirnar.

„Aðilar eru sammála um að Reykjanesbær muni ekki fara í neina innviðauppbyggingu á svæðinu tengda þessari framkvæmd heldur mun Samherji fiskeldi ehf. á eigin kostnað og eigin ábyrgð sjá um þá uppbyggingu innviða, s.s. gatnagerð að svæðinu og innan þess auk annarra verkþátta sem gatnagerðargjaldi er ætlað að standa straum af, þar með talið lagningu rafstrengja og vatns til svæðisins. Fráveita og aðrir innviðir eru einnig á ábyrgð Samherja fiskeldis.“

Heimild: Ruv.is