Home Fréttir Í fréttum Ósátt við að stjórnvöld kaupi ekki upp atvinnuhúsnæði

Ósátt við að stjórnvöld kaupi ekki upp atvinnuhúsnæði

37
0
RÚV – Ragnar Visage

Grindvísk fyrirtæki gera athugasemdir um fyrirhugað frumvarp stjórnvalda um áframhaldandi stuðning við fyrirtæki og íbúa Grindavíkur. Þau eru ósátt við að stjórnvöld hyggist ekki kaupa upp atvinnuhúsnæði.

<>

Fyrirtæki í Grindavík gera athugasemdir við breytingar stjórnvalda á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara undanfarinna mánaða. Margir segja að lítil og meðalstór fyrirtæki verði verst úti.

Athugasemdir hrúgast inn

Ríkisstjórnin kynnti í síðasta mánuði fyrirhugaðar breytingar á ýmsum lögum vegna framhalds á stuðningsaðgerðum við bæði einstaklinga og fyrirtæki í Grindavík. Meðal þess sem lagt er til eru framlengdir viðspyrnustyrkir til fyrirtækja, stuðningslán með ríkisábyrgð til fyrirtækja, stofnun afurðasjóðs Grindavíkur og framlenging sértæks húsnæðisstuðnings.

Fjölmargir fyrirtækjarekendur hafa sent inn athugasemdir við fyrirhugað frumvarp og gagnrýna að ekki standi til að kaupa upp atvinnuhúsnæði í bænum.

Húsverk ehf. óskar til að mynda eftir uppkaupum á húsnæði fyrirtækisins við Norðurhóp – fjórtán íbúða fjölbýlishúsi í byggingu. Byggingin stendur skammt frá hrauninu sem rann inn í Grindavík í janúar.

Fasteignafélag í eigu ríkisins hefur undanfarna mánuði keypt upp íbúðarhúsnæði Grindvíkinga sem voru með lögheimili í bænum en stjórnvöld hafa gefið út að ekki standi til að kaupa upp atvinnuhúsnæði.

Kemur verst niður á smærri fyrirtækjum

Nýsköpunarfyrirtækið Sæbýli segir í umsögn sinni að frumvarp stjórnvalda um tímabundinn rekstrarstuðning nái ekki til nýsköpunarfyrirtækja sem séu í uppbyggingarfasa án rekstrartekna.

Fyrirtækið hafi undanfarin ár byggt upp grundvöll til framleiðslu sem geti skilað umtalsverðum útflutningsverðmætum á næstu árum.

Margir benda á í umsögnum sínum að núverandi ástand og rekstraróvissa komi verst niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Stjörnufiskur leggur til dæmis til að ríkið bjóðist til að kaupa atvinnuhúsnæði fyrirtækja af þeirri stærð, sem hafi ekki bolmagn til að starfa undir núverandi kringumstæðum.

Þá benda einhverjir fyrirtækjaeigendur á að þorri eigin fjár eigenda sé bundinn í fasteign sem sé illseljanleg. Frumvarpið liggur nú hjá efnahags- og viðskiptanefnd eftir fyrstu umræðu í þinginu.

Heimild: Ruv.is