Home Fréttir Í fréttum Leggja vegi yfir nýrunnið hraunið

Leggja vegi yfir nýrunnið hraunið

43
0
Valgarður Guðmundsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni, segir stefnt að því að nýir vegir yfir hraunið þjóni þeim sem eigi erindi í Grindavíkurbæ. Yfirstandandi eldgos lokaði öllum nema einni flóttaleið í og úr bænum. RÚV – Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir

Unnið er að því að opna fleiri leiðir til Grindavíkur. Vegagerð yfir nýrunnið hraun er í fullum gangi og til stendur að koma rafmagni á bæinn síðar í vikunni.

<>

Virknin í eldgosinu við Sundhnúksgíga er stöðug. Unnið verður að því að koma rafmagni aftur á Grindavíkurbæ og í dag var byrjað að leggja vegi yfir hraun.

Ætla að koma rafmagni á bæinn í vikunni
Verulega hefur dregið úr virkni eldgossins síðan það hófst með krafti á miðvikudaginn í síðustu viku. Virknin hefur verið stöðug undanfarið og það er ekkert sem bendir til þess að gosinu fari að ljúka. Enn er virkni í þremur gígum.

Hrauntjarnir hafa myndast út frá rennslinu til suðurs og gætu brotist fram með afli á næstu dögum. Vísindamenn og viðbragðsaðilar fylgjast því grannt með þeim.

Rafmagn fór af Grindavíkurbæ þegar hraun flæddi að loftlínu frá Svartsengi þannig að kviknaði í henni. Síðan þá hefur verið rafmagnslaust í bænum og fyrirtæki sem starfa þar hafa þurft að keyra á kostnaðarsömum varaaflgjöfum. Til dæmis hafa útgerðir þurft að halda rafmagni á frystihúsum með þeim hætti.

Ákveðið var á fundi bæjarstjórnar Grindavíkur, framkvæmdanefndar vegna málefna Grindavíkur og HS Veitna í dag að fara með tvær stórar rafstöðvar til Grindavíkur. Rafmagn ætti að vera komið á bæinn í lok viku.

Fyrstu skrefin í vegagerð yfir hraunið í dag
Hraun flæddi yfir vegi í síðustu viku og aðeins er fært í og úr bænum um Suðurstrandaveg. Í dag var hafist handa við að leggja vegi yfir nýja hraunið.

„Við ætlum að byrja á því að nýta þetta sem vinnuveg, en gerum þá ráð fyrir að geta nýtt þetta bæði sem flóttaleið og lagfært þetta það mikið að við getum haft veg hér alveg yfir, eins og við höfum gert annars staðar í þessum atburði,“ segir Valgarður Guðmundsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni.

„Þetta eru svona fyrstu skrefin. Þá grófjöfnum við hérna yfir og lagfærum þetta aðeins til eins og við getum.“

Bersýnilega má sjá holrými víða undir hrauninu þar sem byrjað hefur verið að þjappa því saman fyrir vegagerð. Það er því vissara að vera varkár þegar gengið er þar yfir.

Reikna með að klára í vikunni
Bæði er verið að leggja vegi þar sem hraun fór yfir Nesveg og á Norðurljósavegi að Bláa Lóninu. Þetta er heilmikið verk.

„Þetta er gríðarlega mikil vinna, jú, vissulega, svo sem eins og hér og í þessum varnargörðum sem hér hafa verið gerðir,“ segir Valgarður.

Það rýkur úr nýja hrauninu; það er hiti í loftinu og víða sjóðandi hiti við hraunið. Glóandi hitinn streymir sums staðar upp úr holum. Og skyldi engan undra.

„Það eru náttúrulega nokkur hundruð gráður sennilega metra undir okkur.“

Hvenær geriði ráð fyrir að vegurinn verði tilbúinn?

„Ég myndi halda, svona miðað við hvernig þetta hefur verið að ganga hjá okkur, að það verði bara núna í vikunni.“

Heimild: Ruv.is