Home Fréttir Í fréttum Bláa lónið keypti land við Hoffellsjökul og áformar baðstað og hótel

Bláa lónið keypti land við Hoffellsjökul og áformar baðstað og hótel

144
0
Fyrrum landeigendur og fulltrúar Bláa lónsins og fleiri fögnuðu áfanga í uppbyggingu svæðisins við lón Hoffellsjökuls í fyrradag. Aðsend mynd – Sigurjón Andrésson

Bláa lónið hefur keypt bróðurpart af jörðinni Hoffelli 2 í Hornafirði. Þar á að byggja baðstað og hótel í námunda við jökullónið. Forstjórinn segir uppbygginguna verða í sátt við náttúruna og sögu svæðisins gert hátt undir höfði.

<>

Fulltrúar Bláa lónsins, Sveitarfélagsins Hornafjarðar, RARIK og landeigendur hittust við rætur Hoffellsjökuls í fyrradag til að fagna áfanga í uppbyggingu staðarins.

Í Hoffelli er ekki bara magnað útsýni yfir jökulinn heldur líka jarðhiti sem RARIK á áfram og nýtir til að kynda Hornafjörð. Uppbygging á svæðinu hefur verið í undirbúningi í þrjú ár og gengið var frá landakaupunum í fyrra.

,,Við ætlum að byggja hér baðstað að Hoffelli og fjölbreytta gistingu. Okkar markmið er að gera þetta í sátt við umhverfi og náttúru. Og gera fólki kleift að njóta Hoffellsjökulsins og þessa einstaka umhverfis sem er hér.

Við teljum að það sé mjög áhugavert fyrir þá sem heimsækja þetta svæði að geta kynnst jöklinum og sögu jökulsins og líka því hvernig umhverfi er að breytast með þeim loftslagsbreytingum sem við erum að upplifa þessa dagana,” segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.

Mörg skref eru óstigin áður en framkvæmdir geta hafist. Í gær hófst samráðsferli við íbúa og hagaðila með íbúafundi á Hornafirði.

Sögu Hoffells og jarðfræði áfram gerð skil
Það er fleira merkilegt í Hoffelli en jökull og jarðhiti. Við bæinn verður gistingin byggð upp og þar hafa eigendur opnað safn um mannlíf í Hoffelli, merkilega jarðfræði og silfurbergsnámu. Þaðan var þessi fágæta steind flutt út um tíma til ársins 1938.

Á safninu afhenti Þrúðmar Þrúðmarsson nýjum eigendum landareignina með táknrænum hætti og lét fylgja merkilegan stein sem langafi hans fann og er sagður hafa vísað á silfurbergsnámuna. Í staðinn fékk hann loforð frá nýjum eigendum um að sögunni yrðu áfram gerð góð skil á staðnum.

Heimild: Ruv.is