Home Fréttir Í fréttum Ný farþegamiðstöð fyrir farþega skemmtiferðaskipa rís á Skarfabakka

Ný farþegamiðstöð fyrir farþega skemmtiferðaskipa rís á Skarfabakka

118
0
Skemmtiferðaskip við höfn í Reykjavík. RÚV – Ragnar Visage

Áætlað er að farþegamiðstöð á Skarfabakka í Sundahöfn verði klár 2026. Þar á að vera hægt að sinna farþegum skemmtiferðaskipa betur, segir forseti borgarstjórnar. Yfir 300 þúsund ferðamenn fara um Faxaflóahafnir árlega.

<>

Síðastliðin tvö ár hafa um 300 þúsund ferðamenn farið um Faxaflóahafnir á ári, með 260 skipum. Stærsta breytingin er aukning svokallaðra skiptifarþega en það eru ferðamenn sem fljúga til landsins, sigla hringinn í kringum landið og fara sömu leið heim.

Fjöldi skipa og farþega stóð í stað milli áranna 2022 og 2023 en það er margt sem hefur áhrif á komu skemmtiferðaskipa. Fyrir utan heimsfaraldur á borð við COVID-19, hefur þróun heimsmála, stríð í Evrópu og breytingar á siglingum um Rauða hafið mikil áhrif á skipakomur til landsins þó að við séum langt í burtu.

Reykjavíkurborg í samstarfi við Faxaflóahafnir er í miðri vinnu við stefnu og þolmarkagreiningu vegna móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar flutti erindi í gær á opnum kynningarfundi borgarinnar Athafnaborgin 2024. Hún er einnig stjórnarformaður Faxaflóahafna og formaður atvinnu, nýsköpunar- og ferðaþjónustu í borginni.

Hún segir að þau hafi ekki viljað bíða lengur eftir þinginu og farið af stað í þolmarkagreiningu. Verkefnin sem snúi að skemmtiferðaskipum séu þrjú og séu risastór:

  1. Umhverfis- og loftslagsmál
  2. Tekjumódelið í kringum skemmtiferðaskipin, hvernig eigi að skattleggja þau og áhrif á ferðaþjónustu
  3. Hvernig skemmtiferðaskipin skiptast í tvo flokka: skiptifarþega og dagsferðamenn.

Skiptifarþegar skilja meira eftir sig

Fram kom í erindi Þórdísar Lóu að skiptifarþegar skilji þrefalt meira eftir sig en dagsferðamenn sem komi til og frá landinu með skemmtiferðaskipum. Það skipti því miklu máli að aðstæður séu boðlegar þegar tekið er á móti farþegunum.

Teikning af nýrri farþegamiðstöð á Skarfabakka við Sundahöfn. Mynd: Faxaflóahafnir / ÍAV, VSÓ og BROKKR STUDIO

Ný farþegamiðstöð tekin í notkun 2026

Að sögn Þórdísar hafa aðstæður ekki verið með besta móti fram að þessu en batni með nýrri farþegamiðstöð við Skarfabakka. Fyrsta skóflustungan var tekin í mars á þessu ári og áætlað er að hún verði tekin í notkun árið 2026.

Til þess að setja stærð hennar í samhengi má segja að hún sé á stærð við fótboltavöll og eigi eftir að getað sinnt 3500 til 4000 farþegum allan ársins hring. Þórdís sagði að það mætti líkja farþegamiðstöðinni við flugstöð þar sem tollaafgreiðsla og landamæraeftirlit verða til staðar, þó verður þar engin fríhöfn.

Tilkynning Faxaflóahafna um skóflustungu nýrrar fjölnota farþegamiðstöðvar

Landtengingar skemmtiferðaskipa

Fyrsta skemmtiferðaskipið var landtengt í fyrrahaust en stóra málið að sögn Þórdísar er að landtengja þurfi öll skemmtiferðaskipin. Þetta verði verkefni allra næstu ára og mun kosta nokkra milljarða.

Heimid: Ruv.is