Home Fréttir Í fréttum Glíma við setbergið í Húsavíkurhöfða

Glíma við setbergið í Húsavíkurhöfða

178
0
Mynd: RÚV
Nú er farið að reyna á það hvernig verktakanum við gerð jarðganga undir Húsavíkurhöfða gengur að eiga við setbergið í höfðanum. Búist er við allt að sextíu gráðu jarðhita á gangaleiðinni.

Rúmur mánuður er liðinn frá því fyrst var sprengt fyrir Húsavíkurhöfðagöngum eins og jarðgöngin heita á pappírum. Það er farið að móta vel fyrir göngunum en verktakinn er kominn um 85 metra inn í höfðann. Eins og fram hefur komið eru þetta fyrstu jarðgöng fyrir bílaumferð hér á landi sem alfarið eru grafin í gegnum setberg.

<>

Þykkari steypa og fleiri bergboltar

Ágúst Guðmundsson, jarðfræðingur og eftirlitsmaður verkkaupans við gangagerðina, segir vandasamt að eiga við setlögin en efast þó ekki um að norskir gangagerðarmenn NLS Sögu ráði við þau. „Það kallar á talsvert meiri styrkingar heldur en væru í hörðu basalti. Þannig að við erum að nota töluvert þykkari sprautusteypu á þetta og fleiri bergbolta heldur en væri í basaltgöngum af sömu stærð,“ segir hann.

Brotvélin losar mikið af grjóti

Setbergið er lagskipt og á milli laga er lausara berg, eða blokkir, sem falla niður þegar sprengt er. Í veiku berginu er með þessari vél hægt að brjóta talsvert úr gangaloftinu á milli þess sem sprengt er. „Það er ansi mikil snyrt með henni í lokin, stundum. Og meira heldur en hægt væri að gera til dæmis í hörðu basalti, sem hún myndi ekki ráða við.“ segir Ágúst.

Ekkert vatnsrennsli en talsverður jarðhiti

Göngin liggja grynnra í landinu en önnur jarðgöng sem ætluð eru fyrir bílaumferð hérlendis, en þekjan er aðeins frá 8 upp í 20 metra þykk. Ágúst segir að ekki sé von á vatni inn í göngin, rannsóknarboranir sýni að grunnvatn liggi dýpra. Hann býst þó við talsverðum jarðhita nyrst í göngunum, þó óvíst sé hvað hitinn verði mikill. „Það er nú róið svolítið í blint með það. En það gæti alveg orðið 60 gráðu hiti í einhverjum sprungum,“ segir hann.

Heimild: Rúv.is