Home Fréttir Í fréttum Reisa nýjan leikskóla vegna mikillar fjölgunar íbúa

Reisa nýjan leikskóla vegna mikillar fjölgunar íbúa

104
0
Séð yfir Þorlákshöfn og leikskóla bæjarins sem er að sprengja utan af sér. RÚV – Bragi Valgeirsson

Íbúum í Þorlákshöfn hefur fjölgað hratt undanfarin ár og það stefnir í að leikskóli bæjarins sprengi utan af sér. Unnið er hörðum höndum að byggingu nýs skóla.

<>

Það stefnir í að leikskólinn í Þorlákshöfn sprengi utan af sér vegna mikillar fjölgunar í bænum undanfarin ár. Ráðist hefur verið í byggingu nýs leikskóla og húsnæðisuppbygging er hröð.

„Hér erum við byrjuð á sökklum á nýjum leikskóla sem á að vera tilbúinn haustið 2025,“ segir Gestur Þór Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar í Ölfusi. „Börn í leikskólanum núna eru 143. Og miðað við að taka inn 18 mánaða börn. Síðustu fjögur ár er væntanlega búið að fjölga um einhver 40 til 50 börn hér í leikskólanum.“

Þetta er mikil fjölgun á stuttum tíma. Fyrir um 25 árum voru börn á leikskólanum Bergheimum í Þorlákshöfn aðeins um 70.

„Síðustu 4 til 6 árin er íbúafjölgun í Ölfusi búin að vera milli 7 og 8 prósent, nánast upp á hvert ár,“ segir Gestur. „Og fólkið sem er að flytja til okkar er að stærstum hluta fólk með börn á leikskóla- og grunnskólaaldri.“

Gestur Þór Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar í Ölfusi.
RÚV – Bragi Valgeirsson

Það er því fyrirséð að leikskólinn sprengi utan af sér fyrr en síðar, þó enn séu engir biðlistar. Tveimur húsum hefur verið bætt við leikskólann undanfarin tvö ár til að þreyja þorrann þar til nýi leikskólinn rís.

„Þegar nýr leikskóli verður tilbúinn til notkunar þá er ljóst að við verðum með töluvert umframpláss af leikskóla. Við erum svona svolítið að vinna okkur í haginn fram í tímann. Að lendi ekki undir boltanum heldur að vera svona aðeins á undan.“

Grindvíkingar með forgang að lóðum

Atvinnuuppbygging í Þorlákshöfn hefur líka verið mikil undanfarin ár og bærinn stækkar hratt.

Grindvíkingum hefur verið boðinn forgangur að lóðum í nýju hverfi með skilyrði um búsetu. „Meðal annars hafa þeir sömu aðgöngu að þjónustu í Ölfusi eins og aðrir íbúar. Hvort sem það er grunnskóli, leikskóli eða þjónusta við eldri borgara.“

Á nýja leikskólanum verða fjórar deildir fyrir 80 börn. Þó verður rými fyrir sex deildir – 120 börn.

Gestur væntir þess að skólinn verði tilbúinn á tilsettum tíma. „Já. Ég hef engar aðrar væntingar en það að þetta verði tilbúið.“

Heimild: Ruv.is