Ásýnd Hauganess gæti orðið gjörbreytt á næstu árum, nái áform ferðaþjónustufyrirtækis fram að ganga. Til stendur að byggja baðstað í fjörunni, frístundahús og hótel.
Mikil uppbygging er í kortunum á Hauganesi við Eyjafjörð, þar sem stendur til að opna baðaðstöðu, hótel og frístundahús á næstu árum. Sveitarstjóri segir áformin mikla lyftistöng fyrir samfélagið.
Viljayfirlýsing um byggingu ferðaþjónustubyggðar á Hauganesi var undirrituð í Sandvíkurfjöru á dögunum.
Þar hefur fyrirtækið Ektaböð rekið lítinn baðstað í átta ár og aðsóknin hefur aukist ár frá ári.
Ásýnd fjörunnar á eftir að gjörbreytast með nýjum Fjöruböðum.
Á næstu þremur mánuðum verða samningar við sveitarfélagið kláraðir, en báðir aðilar eru bjartsýnir um að sú samvinna gangi áfram vel.
„Ég held að það sé bara mjög svo tímabært að byggja upp í kring um þetta og þeir eru með mjög flott áform varðandi þá uppbyggingu“, segir Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkubyggð.
Ferðaþjónustubyggð með gistingu, böðum, veitingum og afþreyingu
Á svæðinu ofan við fjöruna stendur svo til að reisa 40 herbergja hótel á næstu fimm árum, auk 30 sumarhúsa og afþreyingarsvæðis. Á Hauganesi búa aðeins um hundrað manns, en eigendurnir telja þá flesta fylgjandi framkvæmdunum.
„Það er alveg alger meirihluti hlynntur þessu því þetta mun fjölga atvinnutækifærum, hækka fasteignaverð hjá fólki sem hefur verið allt of lágt hérna á svæðinu. Þannig þetta á eftir að skila sér á ýmsan máta“, segir Elvar Reykjalín, eigandi Ektabaða.
Heimild: Ruv.is