Home Fréttir Í fréttum Ráðast í úrbætur á skólphreinsistöðinni svo mengun í Varmá minnki

Ráðast í úrbætur á skólphreinsistöðinni svo mengun í Varmá minnki

52
0
Pétur G. Markan, bæjarstjóri í Hveragerðisbæ, segir Hveragerði hafa verið leiðandi í hreinsun skólps og ætli að vera það áfram. Til þess þarf að bæta núverandi stöðu. RÚV – Arnór Fannar Rúnarsson

Það verður ekki veitt í Varmá í sumar. Ástæðan er að skólphreinsistöðin í Hveragerði ræður ekki fyllilega við verkefni sitt vegna aukins íbúafjölda og bakteríumagn í ánni er orðið of mikið. Ráðist verður í úrbætur í sumar og ný stöð á að rísa 2027.

<>

Of mikið álag er á skólphreinsistöðina í Hveragerði vegna íbúafjölda. Þetta hefur áhrif á Varmá. Bæjarstjórinn segir að vonir standi til að hægt verði að bæta vinnsluna nóg til að brúa bilið þar til stöðin verður stækkuð.

Nú er svo komið að skólphreinsistöðin í Hveragerði ræður ekki fyllilega við verkefni sitt og heilbrigðisnefnd Suðurlands krefst úrbóta; segir stöðuna grafalvarlega og óviðunandi.

„Hveragerði og Hveragerðisbær hefur verið leiðandi þegar kemur að skólphreinsun og við erum mjög stolt af því,“ segir Pétur G. Markan, nýskipaður bæjarstjóri í Hveragerðisbæ.

„En það hefur líka verið mikill vöxtur í sveitarfélaginu eins og þjóðin hefur fylgst með. Bæði mikil fjölgun íbúa og svo hafa fyrirtækin verið að hasla sér völl. Þetta þýðir allt meiri umsvif og meira álag á hreinsistöðinni.“

Ekki veitt í Varmá í sumar vegna mengunar
Stöðin hreinsar skólpið vissulega eftir sem áður. En líffræðilegt niðurbrot skólpsins er ekki nægilegt þegar það fer úr hreinsistöðinni í viðtakann – Varmá.

„Þess vegna erum við líka með svona metnaðarfulla og faglega hreinsun. Það er vegna þess að okkar viðtaki er mjög viðkvæmur og það er ekki í boði annað en að þetta sé í lagi.“

Nú er sem sagt magn baktería sem fer út í ána of mikið.

En það verður þá ekki veitt í Varmá í sumar eða hvað?

„Það verður ekki veitt í sumar og við sjáum til með framhaldið. En það er sameiginlegt markmið okkar allra að það verði veitt í Varmánni sem allra fyrst.“

RÚV / Arnór Fannar Rúnarsson

Ráðast í úrbætur í sumar
Áætlað er að taka nýja, stækkaða skólphreinsistöð í notkun á vormánuðum 2027. Nýverið kom sérfræðingur frá Danmörku til að gera úttekt á stöðinni og leiðbeina aðstandendum hennar. Hann komst að þeirri niðurstöðu að hægt væri að betrumbæta vinnslu stöðvarinnar þar til ný stöð rís. Ráðist verður í þær aðgerðir í sumar. Allt miðar að því að efla niðurbrotið.

„Þannig að það mælist í raun og veru lítið sem ekkert eða allavega undir mörkum þegar út kemur í ána,“ segir Pétur.

Heilbrigðisnefndin hefur sagt að að óbreyttu verði ekki hægt að ráðast í frekari uppbyggingu í Hveragerðisbæ. Pétur telur aftur á móti að úrbótaáætlanir sem nú hefur verið skilað til heilbrigðisnefndar dugi til.

„Enda eru önnur sveitarfélög hér í kring að stækka og vaxa án þess að vera með þessi mál alveg á kristaltæru.“

Heimild: Ruv.is