Home Fréttir Í fréttum „Verulega brugðið að sjá þennan þátt“

„Verulega brugðið að sjá þennan þátt“

62
0
Hildur Björnsdóttir segir fyrrverandi borgarstjóra Dag B. Eggertsson slá ryki í augu fólks. Samsett mynd

„Það skorti alla fag­mennsku við gerð þess­ara samn­inga. Það virðist sem þáver­andi borg­ar­stjóri hafi annað hvort ekki gert sér grein fyr­ir þeim verðmæt­um sem hann færði olíu­fé­lög­un­um án end­ur­gjalds, eða hafi hrein­lega ekki haft dug til að bera sig eft­ir þeim.

<>

Borg­ar­stjóri hef­ur því farið annað hvort blá­eygður eða hug­laus inn í viðræðurn­ar, því hann bað ekki um krónu í skipt­um fyr­ir upp­bygg­ing­ar­heim­ild­ir á verðmæt­um lóðum í eigu borg­ar­inn­ar. Í því felst okk­ar gagn­rýni.“

Svo hljóðar til­kynn­ing sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn í Reykja­vík sendi frá sér í kjöl­far um­fjöll­un­ar Kast­ljóss­ins í kvöld um um­deilda samn­inga Reykja­vík­ur­borg­ar við olíu­fé­lög­in um bens­ín­stöðvalóðir borg­ar­inn­ar.

Áætlað er að verðmæti bygg­ing­ar­rétt­ar á þeim tólf bens­ín­stöðvalóðum, sem séu í fyrsta fasa samn­inga borg­ar­inn­ar við olíu­fé­lög­in, sé um 10 millj­arðar króna, að því er fram kem­ur í þætt­in­um.

María Sigrún Hilm­ars­dótt­ir, frétta­kona á RÚV, stóð að um­fjöll­un­inni sem átti að birt­ast í Kveik en Maríu var vikið úr Kveiksteym­inu ný­lega. Var hann eins og áður sagði birt­ur í Kast­ljós­inu í kvöld.

Eng­an hafi órað fyr­ir hvað vakti fyr­ir borg­ar­stjóra
„Okk­ur er auðvitað veru­lega brugðið að sjá þenn­an þátt,“ seg­ir Hild­ur Björns­dótt­ir, odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík, í sam­tali við mbl.is.

Hún seg­ir borg­ar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa fylgst grannt með þessu máli síðan samn­ing­arn­ir komu á borð borg­ar­stjórn­ar­inn­ar árið 2021 og hafi gagn­rýnt hvernig staðið var að þeim.

„Við studd­um mark­miðið sem lagt var upp með árið 2019 um að ganga til viðræðna við olíu­fé­lög­in um að fækka bens­ín­stöðvum í borg­ar­land­inu svo hægt væri að nýta lóðirn­ar til íbúðaupp­bygg­ing­ar. En eng­an óraði fyr­ir að þetta væri það sem vakti fyr­ir borg­ar­stjóra á sín­um tíma.“

Hún seg­ir það mikið áfall að áætlað sé að verðmæt­in sem hafi verið af­hent olíu­fé­lög­un­um séu svo mik­il eða um 10 millj­arða króna.

Áætlað er að verðmæti bygg­ing­ar­rétt­ar á þeim 12 bens­ín­stöðvalóðum, sem séu í fyrsta fasa samn­inga borg­ar­inn­ar við olíu­fé­lög­in, sé um 10 millj­arðar króna. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Fúsk og slóðaskap­ur

Innt eft­ir viðbrögðum við rök­semda­færslu Dags B. Eggerts­son­ar, fyrr­ver­andi borg­ar­stjóra, í viðtali við Maríu Sigrúnu í þætt­in­um, seg­ir Hild­ur hana í raun ótrú­lega.

„Mér finnst þetta bara al­veg ótrú­legt og þetta mál allt dæmi­gert fúsk og slóðaskap­ur af hálfu þessa meiri­hluta,“ seg­ir Hild­ur.

„Hvernig hann reyn­ir að slá ryki í augu fólks með því að halda því fram að þegar lagt hafi verið af stað í þessa veg­ferð árið 2019 hafi það al­gjör­lega verið ljóst að þarna ætti að gefa olíu­fé­lög­un­um þessa byggingar­rétti,“ bæt­ir hún við og seg­ir fyrr­ver­andi borg­ar­stjór­ann lengi og víða hafa haldið því fram.

Það komi aft­ur á móti fram í þætt­in­um að þetta atriði hafi alls ekki verið í skýrt í raun svo óskýrt að María Sigrún bendi Degi á í þætt­in­um að í samn­ing­un­um komi hvergi fram að olíu­fé­lög­in eign­ist bygg­ing­ar­rétt­inn.

Málið af­greitt fyr­ir lukt­um dyr­um

Fjór­ir nú­ver­andi og fyrr­ver­andi borg­ar­full­trú­ar koma aft­ur á móti fram í þætt­in­um og segja það ekki hafa komið skýrt fram og að vinnu­brögð í tengsl­um við samn­ing­ana hafi verið óeðli­leg. Seg­ir í þátt­un­um að málið hafi verið tekið til af­greiðslu og samþykkt hjá borg­ar­ráði um há­sum­ar þegar borg­ar­stjórn hafi verið í sum­ar­fríi.

„Þetta var af­greitt, stórt mál, fyr­ir lukt­um dyr­um þar sem al­menn­ing­ur hafði ekki aðkomu að,“ sagði Eyþór Arn­alds Lax­dal, fyrr­ver­andi odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík.

Hild­ur seg­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn hyggj­ast leggja fram til­lögu á borg­ar­stjórn­ar­fundi á morg­un um að það verði gerð óháð út­tekt á samn­ing­un­um og aðdrag­anda þeirra. Al­mennt þurfi að skoða hvernig staðið sé að lóðamál­um í Reykja­vík­ur­borg og gæta þess að mál af þess­um toga komi ekki aft­ur upp.

Ótt­ast að skaðinn sé skeður

Spurð hvað slík út­tekt kunni að hafa í för með sér kveðst Hild­ur því miður ótt­ast að erfitt reyn­ist að fletta ofan af því tjóni sem þegar hafi orðið.

„Ég ótt­ast að skaðinn sé skeður og að tjónið sé orðið og það sé erfitt að vinda ofan af því. Það sé erfitt.“

Hún telji engu að síður mik­il­vægt að skoða hvers vegna slíkt hendi og hvort annað eins hafi átt sér stað áður til að tryggja gagn­sæi og jafn­ræði.

„Það er auðvitað hús­næðis­skort­ur í borg­inni og hafa verk­tak­ar ít­rekað bent á lóðaskort sem eina megin­á­stæðu þess að hér bygg­ist ekki upp nægt hús­næði,“ seg­ir Hild­ur.

„Við þurf­um að tryggja aukið lóðafram­boð og að sann­gjörn og eðli­leg sjón­ar­mið ráði för við all­ar lóðaút­hlut­an­ir. Þegar borg­ar­stjóri geng­ur til samn­inga fyr­ir hönd okk­ar borg­ar­búa þarf áhersla hans auðvitað alltaf að vera sú að tryggja bestu hags­muni borg­ar­inn­ar, og eðli­legt verð fyr­ir þau verðmæti sem eru framseld.“

Heimild: Ruv.is