Home Fréttir Í fréttum Fram­­kvæmdir muni ekki hafa mark­tæk á­hrif á dag­­lega starf­­semi

Fram­­kvæmdir muni ekki hafa mark­tæk á­hrif á dag­­lega starf­­semi

65
0
Halla Thoroddsen forstjóri Sóltúns og Halldór Benjamín forstjóri Regins fasteignafélags. VÍSIR/ARNAR/SÓLTÚN

Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns, segir að fyrirhugaðar framkvæmdir við hjúkrunarheimilið muni ekki koma til með að hafa marktæk áhrif á daglega starfsemi.

<>

Halldór Benjamín forstjóri Regins fasteignafélags, sem er eigandi fasteignarinnar, segir að sú leið sem hafi verið valin taki mið af bæði núverandi starfsemi og íbúum Sóltúns.

Aðstandendur íbúa hjúkrunarheimilisins Sóltúns hafa mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum við heimilið, sem eiga að hefjast í haust. Meðal þeirra sem vöktu athygli á málinu var Elín Hirst, sem segir að sjúklingar á Sóltúni séu viðkvæmur hópur sem þoli illa þann hávaða, mengun og annað ónæði sem fylgir framkvæmdum.

Ætla að draga úr áhrifum framkvæmdanna eftir bestu getu
Halla Thoroddsen forstjóri Sóltúns segir í skriflegu svari til fréttastofu að stjórnendur heimilisins og eigendur þess, Reginn, taki undir áhyggjur aðstandenda, en á sama tíma vilja þau fullvissa aðstandendur um það að þau ætli að leggja sig fram með markvissum aðgerðum og í samráði við íbúa og aðstandendur til að draga úr áhrifum framkvæmdanna eftir bestu getu.

Halldór Benjamín forstjóri Regins, segir að þau ætli að setja upplýsingagjöf til íbúa og aðstandenda þeirra í algjöran forgang í tengslum við framkvæmdirnar.

Þau Halla og Halldór vonast til þess að rask og almennt ónæði verði sem minnst, og þau muni áfram skoða hvað hægt sé að gera þannig að svo megi verða. Horft hafi verið til þess við val á byggingaraðferð og hönnun nýja hússins að stytta byggingartímann sem mest.

Gríðarleg eftirspurn eftir fleiri hjúkrunarrýmum
Þá segir Halla að til hafi staðið í mörg ár að stækka Sóltún, og forsvarsmenn Sóltúns hafi talað opinskátt fyrir þörf á frekari uppbyggingu enda eftirspurnin gríðarleg.

Um 250 aldraðir séu á biðlista eftir hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu og fyrirséð að biðlistinn muni lengjast hratt með hlutfallslegri fjölgun aldraðra á næstu árum.

„Til ársins 2040 þarf að byggja 1600 ný hjúkrunarrými til að halda í við eftirspurnna en það þýðir eitt 94 rýma hjúkrunarheimili á ári. Reginn hf (eigandi fasteignarinnar) og Sóltún (rekstraraðilinn) eru að bregðast við þessari eftirspurn eftir fleiri þjónustuúrræðum,“ segir Halla.

Halldór segir að verið sé að taka mið meðal annars af framtíðarþörfum hjúkrunarheimilisins, verið sé til að mynd að stórbæta aðstöðu fyrir sjúkraþjálfun. Rekstraraðilar Sóltúns séu mjög spennt að fá húsnæði sitt stækkað, en eftir framkvæmdirnar verði möguleiki á að veita enn fleirum þjónustu á þessu eftirsótta hjúkrunarheimili.

Heimild: Visir.is