Home Fréttir Í fréttum Sex metra háir garðarnir fullkláraðir innan þriggja vikna

Sex metra háir garðarnir fullkláraðir innan þriggja vikna

56
0
Jarðvegi rutt til að mynda nýja varnargarða við Grindavík. RÚV – Bragi Valgeirsson

Enn og aftur eru vinnuvélar farnar að ryðja efni í nýja varnargarða. Þeir rísa um 120 metra frá þeim gömlu og er ætlað að grípa hraun sem gæti runnið yfir eldri garðana.

<>

Vinna er hafin við að reisa nýja varnargarða innan við þá sem eru við Grindavík. Vonir standa til að nýir garðar stýri þunnfljótandi hraunrennsli frá bænum, ef það skyldi taka að flæða yfir eldri varnargarða.

Hinn nýi varnargarður mun rísa samsíða varnargarði L12, en þar hefur hraun tekið að staflast upp í miklum mæli. Á sumum stöðum er hraunið við varnargarðana orðið hærra en garðarnir sjálfir.

„Það sem við gerum er að færa okkur um 120 metra til hliðar og leggjum bara hreinlega aðra línu,“ segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu. Með því er vonað að ef hraunrennsli finnur sér leið yfir garðinn, muni annar garður grípa það og afstýra frá bænum.

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu.
RÚV – Amanda Guðrún Bjarnadóttir

Ekki vænlegur kostur að hækka eldri varnargarða
Þegar hraun tók að safnast fyrir við varnargarðana í lok apríl var ljóst að eitthvað þyrfti að gera. Takmörk eru fyrir því hve lengi er hægt að hækka núverandi varnargarða.

„Af því fyrir hvern meter sem hækkar kemur meiri breidd og meira efni sem þarf í þetta og þá er kannski á einhverjum tímapunkti auðveldara að byrja bara upp á nýtt og færa sig,“ segir Jón Haukur.

Sex metra hár veggur tilbúinn á þremur vikum
Reynslan er orðin mikil og því mun ekki líða á löngu þar til garðarnir verða fullbúnir, hátt í sex metrar á hæð. Nú er unnið á fullu í jarðýtum við að ryðja efninu svo það myndi línu.

„Og þar með er þetta mjög fljótlega komið með einhverja virkni allavega gagnvart þessu þunna hrauni.“ Jón Haukur segir að í heildina muni taka um tvær til þrjár vikur að ná fullri hæð og ganga frá verkinu.

Heimild: Ruv.is