Home Fréttir Í fréttum Ákvörðun um nýjan varnargarð væntanlega tekin í dag

Ákvörðun um nýjan varnargarð væntanlega tekin í dag

33
0
RÚV – Ragnar Visage

Ákvörðun um hvort byggja eigi nýjan varnargarð við Grindavík verður væntanlega tekin í dag. Sá garður yrði allt að eins kílómetra langur.

<>

Hraun er þegar farið að flæða yfir varnargarð norðan og austan við Grindavík.

Búið er að teikna nýjan varnargarð þar fyrir innan og sagði Jón Haukur Steingrímsson jarðverkfræðingur hjá Eflu í fréttum RÚV að rétt væri að reisa slíkan garð á meðan vilji væri til að verja byggðina.

Hann sagði í samtali við fréttastofuna í morgun að minnisblað þar að lútandi hefði verið sent dómsmálaráðuneytinu, sem fer með almannavarnamál, og að búist væri við niðurstöðu í dag.

Nýi garðurinn, yrði af honum, yrði um fimm metra hár og átta hundruð metra til eins kílómetra langur innan við garða sem hafa verið kallaðir L12 og L13. Þeir garðar eru núna orðnir þrettán til fjórtán metra háir.

Jón Haukur segir hraunið sem náð hefur upp á varnargarðana veita aukna vörn, en fyrirhuguðum varnargarði innan við verði ætlað að taka við þunnu hraðfljótandi hrauni sem kæmist inn fyrir.

Erfitt gæti verið með að ná í efni til að byggja garðinn en væntanlega yrði reynt að grafa upp eða dýpka á svæðinu á milli nýja garðsins og þeirra sem fyrir eru.

Heimild: Ruv.is