Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Stærra hús við sjóinn opnar marga möguleika

Stærra hús við sjóinn opnar marga möguleika

115
0
Nýbygging Víkingbáta á Óseyrarbraut 25 í Hafnarfirði ætti að vera komin í gagnið í haust. FF Mynd/Eva Björk

Matthías Sveinsson, eigandi Víkingbáta, segir að stefnt sé að því að flytja starfsemina í sumar eða haust frá núverandi stað á Kirkjumel í nýtt húsnæði sem nú er í smíðum á Óseyrarbraut í Hafnarfirði.

<>

„Þetta breytir miklu fyrir okkur þar sem við erum þá náttúrlega komnir nálægt sjó og inn á hafnarsvæði,“ segir Matthías Sveinsson, eigandi Víkingbáta, um flutning fyrirtækisins ofan af Kirkjumel niður á Óseyrarbraut í Hafnarfirði.

Framkvæmdir við nýbygginguna á Óseyrarbraut 25 hafa gengið vel. „Það er verið að loka stóra húsinu og svo er verið að steypa upp efri hæðina á skrifstofubyggingunni sem snýr að Hvaleyrarholtinu. Það er stefnt að því að húsið verði tilbúið seinnipart sumars eða snemma í haust,“ segir Matthías.

Víkingbátar Óseyrarbaut 25. Tölvumynd/Víkingbátar

Lofthæðin tvöfaldast
Nýja húsið verður með mikilli lofthæð. „Við erum að fara úr níu metrum í átján metra hátt hús með hlaupaköttum og stórum innkeyrsluhurðum. Þetta er miklu öflugra hús,“ segir Matthías. Nýir möguleikar muni opnast fyrir Víkingbáta.

„Við getum smíðað stærri báta. Hurðirnar eru um fjórtán metra háar og þetta er orðin allt önnur aðstaða við að koma bátum inn og út úr húsi. Síðan erum við með gríðarlega lyftigetu í húsinu til að færa til stóra báta,“ segir Matthías sem kveður aldrei að vita nema einmitt verði farið í smíði stærri báta en áður.

Gætu smíðað landeldisker
„Við getum líka þess vegna farið út í meira því við getum líka boðið upp á aðstöðu og þjónustu varðandi landeldi. Við getum búið til stór og mikil ker og þjónustað landeldi og fiskeldi almennt þegar við erum komnir í svona stórt hús. Það skapar miklu meiri möguleika fyrir Víkingbáta að stækka fyrirtækið,“ segir Matthías. Þetta sé framtíðarmúsík.

„Fyrst er að koma okkur inn og þá getum við farið að horfa í kringum okkur,“ segir Matthías.

FF Mynd/Eva Björk

Samlegðaráhrif hjá Víkingbátum
Víkingbátar hafa hingað til ekki horft til fiskeldisgeirans svo það yrði nýtt viðfangsefni fyrir fyrirtækið. Matthías segir Víkingbáta með gott bakland fyrir slíkt meðal annars Fagtækni sem sé tæknifyrirtæki í hans eigu sem til dæmis hafi sett rafmagn í Reykjanesvirkjun á sínum tíma. Þarna séu ýmis samlegðaráhrif.

„Landeldið er gríðarlega öflugur iðnaður sem menn eru að starta og þar gætum við komið sterkir að með dótturfélögum okkur og farið í stýringar, dælubúnað og alls kyns annað,“ bendir eigandi Víkingbáta á.

Smíða Sómabáta á lager
Eins og kom fram í Fiskifréttum í síðustu viku afhentu Víkingbátar nýlega tvo nýja Sómabáta, annan á Patreksfjörð og hinn fór til Húsavíkur.

Matthías segir fleiri Sómabáta í farvatninu. „Við erum að smíða báta inn á lager til að eiga þá til,“ segir hann. Það auki sölumöguleikana því það taki fimm til sex mánuði að smíða bátana en stundum vilji menn fá bát strax.

„Við viljum eiga báta á öllum stigum þannig að það verði styttri afhendingartími í þessum minni bátum,“ segir Matthías sem einnig er farinn að hasla sér völl utan Íslands.

Strandveiðiflotinn að eldast
„Við erum að fara að markaðssetja bátana meira erlendis, í Noregi, Færeyjum og á Grænlandi. Við höfum þegar selt tvo báta til Grænlands,“ segir Matthías sem tekur undir að hér heima sé mikið verk óunnið þar sem strandveiðiflotinn sé farinn að eldast.

„Það eru sjö hundruð bátar á sjó og það er orðin mikil þörf á endurnýjun á þessum bátum,“ segir Matthías sem telur fyrirtæki sitt vera með einn besta handfærabátinn í Sómanum og því vera í sterkri stöðu. „Hann er að minnsta kosti svo vinsæll að þetta virðast vera einhver trúarbrögð hjá sjómönnum.

Heimild: Fiskifrettir.vb.is