Bæjarstjóri Ölfuss segir sveitarfélagið vel í stakk búið að taka á móti Grindvíkingum. Þeir njóta nú forgangs í íbúðalóðakaupum í nýju hverfi í Þorlákshöfn.
Búið er að opna fyrir umsóknir um lóðir í Þorlákshöfn sem Grindvíkingar hafa forgang að. Bæjarstjóri Ölfuss segir Grindvíkinga sýna lóðunum mikinn áhuga en á annað hundrað þeirra hafa sest þar að á undanförnum mánuðum.
Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss í lok febrúar var samþykkt að veita íbúum með lögheimili í Grindavík forgang við úthlutun lóða í nýju hverfi í Þorlákshöfn. Áætlað er að 42 íbúðir verði byggðar.
„Neyð þeirra er einfaldlega meiri en annarra“
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að leitað hafi verið ýmissa leiða til að hjálpa Grindvíkingum, meðal annars með því að samþykkja að íbúar með lögheimili í Grindavík njóti sama réttar og íbúar með lögheimili í Ölfusi – til dæmis varðandi pláss á leikskólum og dvalarheimilum.
„Og núna teljum við að þarfir þeirra séu komnar á þann stað að þau vilji horfa til framtíðar. Og þá viljum við ekki láta okkar eftir liggja og ákváðum þess vegna að þau hefðu forgang að þessum íbúðum. Neyð þeirra er einfaldlega meiri en annarra,“ segir Elliði.
Hann segir Grindvíkinga sýna tilboðinu mikinn áhuga. „Frá því við auglýstum þessar lóðir um seinustu helgi höfum við fengið talsvert mikið af fyrirspurnum frá Grindvíkingum en einnig frá öðrum.“
Geta vel tekið á móti fleiri íbúum
Elliði segir að nú séu á annað hundrað Grindvíkingar með lögheimili eða aðsetur í Þorlákshöfn. Sveitarfélagið sé vel í stakk búið til að taka á móti fleiri íbúum.
„Við búum svo vel hér í Ölfusi að það er mikil verðmætasköpun að eiga sér stað. Það eru fjárfestingar í verðmætaskapandi verkefni fyrir vel á fjórða hundrað milljarða.
Þannig við erum tekjuhá og getum látið innviðina vaxa mjög hratt. Og það erum við að gera núna með byggingu á nýjum leikskóla, stækkun á grunnskóla, byggingu á nýjum miðbæ, stækkun hafnarinnar, byggingu á fjölnota íþróttahúsi og lengi má áfram telja.“
Heimild: Ruv.is