Home Fréttir Í fréttum Ný lausn gæti flýtt úrbótum á Fjarðabyggðarhöllinni

Ný lausn gæti flýtt úrbótum á Fjarðabyggðarhöllinni

55
0
Þak Fjarðabyggðarhallarinnar ryðgar og er farið að leka. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Mögulega verður hægt að ráðast fyrr í endurbætur á ryðguðu og leku þaki Fjarðabyggðarhallarinnar á Reyðarfirði en áætlað var. Ný lausn til að einangra og klæða þök gæti lækkað kostnað um helming.

<>

Lausn er í sjónmáli á miklum vandræðum í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði, stærsta íþróttamannvirki Austurlands. Þakjárnið tærist hratt og húsið lekur en ný aðferð til að einangra og klæða þök gerir kostnað við framkvæmdina viðráðanlegan.

Fjarðabyggðarhöllin verður 18 ára á þessu ári og þó húsið sé ekki eldra er bogaþakið ryðbrúnt og hefur snarversnað á skömmum tíma. Talið er að galli eða spenna í þakjárninu, eða aðstæður í firðinum valdi því að járnið ryðgar og eru sums staðar komin lítil göt á bárujárnið. Ekki eru þó slíkar skemmdir í bitum sem halda þakinu uppi.

Vilja vinna bug á kulda í húsinu
Þessu til viðbótar þykir mjög kalt í húsinu og það er hvorki einangrað né upphitað. Fullyrt er að stundum sé jafnvel kaldara þar inni en úti þar sem hátt þakið dragi í sig kulda.

Fjarðarbyggð hefur um nokkurt skeið leitað lausna en allt leit út fyrir að útbætur yrðu mjög dýrar. Þuríður Lillý Sigurðardóttir, formaður skipulags- og framkvæmdanefndar, segir að yrði þakið klætt og einangrað á hefðbundinn hátt þyrfti líklega að styrkja húsið til að það bæri þakið. Áætlað var að slíkt gæti kostað allt að 400 milljónir króna.

Fjarðabyggð stendur frammi fyrir dýrum og aðkallandi viðhaldsverkefnum vegna myglu í nokkrum mannvirkjum sveitarfélagsins og ljóst var að ekki yrðu til svo miklir peningar til að verja í Fjarðabyggðarhöllina í bráð.

Kvoða á þakið mynd helminga kostnað
Á fundi skipulags- og framkvæmdanefndar nýverið var kynnt lausn og tilboð frá fyrirtækinu Jötunverki sem yrði um helmingi ódýrari. Járnið yrði ryðvarið, þakið kvoðu til að einangra og varnarlag sett þar yfir. Efnið er mjög létt og er notað til að einangra frystigáma. Hér á landi hefur það aðeins verið notað á þök minni bygginga.

Nú er verið að meta hvort óhætt sé að nota efnið á þakið án styrkingar og hvað kosti að loka stöfnum hússins, setja upp loftræstingu og kyndingu, mögulega með varmadælum.

Í framhaldinu skýrist hvenær Fjarðabyggð hefur ráðrúm til að ráðast í endurbæturnar.

Heimild: Ruv.is