Home Fréttir Í fréttum Fjarðarheiðargöng gætu borgað sig fljótt

Fjarðarheiðargöng gætu borgað sig fljótt

61
0
Moksturstæki í Öxnadalnum í gærmorgun. mbl.is/Sonja Sif Þórólfsdóttir

Af­lýsa þurfti opn­um fundi um Fjarðar­heiðargöng og sam­göng­ur Aust­fjarða með Sig­urði Inga Jó­hanns­syni innviðaráðherra sem halda átti á Eg­ils­stöðum í dag, en sam­göngu­mál brenna á íbú­um Seyðis­fjarðar og annarra sveit­ar­fé­laga á Aust­ur­landi eft­ir að Seyðfirðing­ar voru lokaðir inni alla páska­helg­ina vegna ófærðar á Fjarðar­heiði.

<>

Hafa íbú­ar rætt stöðuna mjög á sam­fé­lags­miðlum um ástand bæj­ar­fé­laga sem þurfa að búa við að vera inni­lokuð vegna ófærðar á fjall­veg­um og hvort það sé eðli­legt að þeir sætti sig við þessa stöðu, sem kem­ur upp á hverj­um vetri ef ekki oft á vetri víðs veg­ar um landið.

Inni­lokaðir dög­um sam­an

Björn Ingimars­son sveit­ar­stjóri Múlaþings seg­ir í sam­tali við Morg­un­blaðið í dag að tími sé kom­inn til að hefja vinnu við Fjarðar­heiðargöng, sem kallað hef­ur verið eft­ir árum sam­an. Seg­ir hann sam­stöðu ríkja um þetta meðal sveit­ar­fé­laga á Aust­ur­landi.

Hann bæt­ir við að ekki sé boðlegt að íbú­ar séu inni­lokaðir á Seyðis­firði jafn­vel dög­um sam­an og eng­ar sam­göng­ur séu til dæm­is á sjúkra­húsið á Norðfirði. „Þetta er mjög erfitt fyr­ir íbúa Seyðis­fjarðar.

Svo erum við með ferju­teng­ingu við Evr­ópu og þarna eru mikl­ir frakt­flutn­ing­ar sem fara þarna í gegn, og í tengsl­um við það er mik­ill ferðamanna­straum­ur, svo þetta er stór­mál fyr­ir Aust­f­irði að hafa trygg­ar sam­göng­ur milli staða og annarra lands­hluta.“

Hann seg­ir jafn­framt að vissu­lega séu jarðgöng gíf­ur­lega dýr fram­kvæmd, en með gjald­töku fyr­ir um­ferð og minni kostnaði við vetr­ar­færð á fjall­veg­um myndi kostnaður­inn borga sig upp fljótt og styrkja teng­ingu lands­hluta og allt sam­göngu­kerfi lands­ins gíf­ur­lega.

„Það myndi eng­inn hugsa í dag að Hval­fjarðargöng­in hefðu ekki verið góð fram­kvæmd á sín­um tíma,“ seg­ir Björn.

Lesa má meira um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Heimild: Mbl.is