Vegagerðin á Vesturlandi hefur ekki nægt fjármagn í viðhald vegna skemmda á vegum. Sveitarstjórn í Dalabyggð kallar eftir framtíðarlausn varðandi vegakerfið.
Neyðarástand ríkir í vegamálum í Dalabyggð, segja sveitarstjórnarmenn. Svæðisstjóri Vegagerðarinnar segir brýnustu viðhaldsverkefni kosta 6-7 milljarða en aðeins hálfur milljarður fáist til verksins á ári.
„Er árið 2024?“
Dalamönnum var brugðið þegar umfang skemmda á Vestfjarðavegi varð ljóst. Slitlagið er svo illa farið að Vegagerðin greip til þess ráðs að breyta veginum í malarveg á köflum.
Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti sveitarstjórnar Dalabyggðar velti fyrir sér hvort það væri árið 2024 þegar hann las fréttina. „Maður var svolítið hissa.“
Uppsöfnuð viðhaldsþörf
Vegurinn um Þröskulda sem opnaður var 2009 beindi umferð til og frá Vestfjörðum um Dalabyggð. Aukið fiskeldi á Vestfjörðum jók svo álagið enn frekar en fulllestaður flutningabíll slítur vegum á við 10.000 fólksbíla.
„Þetta er uppsöfnuð viðhaldsþörf á veginum,“ segir Eyjólfur. „Við höfum þarna líka einbreiðar brýr og marga hættulega kafla. Meðal annars þess vegna þá vann Dalabyggð á síðasta ári forgangsröðun á vegum í Dalabyggð. Við erum að kalla eftir einhverri framtíðarlausn varðandi vegakerfið.“
Vilja ekki fresta öðrum framkvæmdum
Í bókun sveitarstjórnar er kallað eftir að viðgerðir á Vestfjarðavegi verði ekki til þess að öðrum nauðsynlegum viðhaldsverkefnum sé frestað.
„Við leggjum áherslu á það þó við séum að kalla eftir viðhaldi á vegunum okkar, á okkar svæði þá má þetta ekki verða til þess að þetta komið niður á vegaframkvæmdum annars staðar,“ segir Eyjólfur. „Það þarf nýtt fjármagn í þetta ef að ekki eiga að verða þarna bara slys á fólki og slys á ökutækjum.“
Ekki nægt fjármagn í viðhald
Eyjólfur segir sveitarstjórn ítrekað hafa ályktað um vegina. „Það er alltaf þakkað fyrir þegar við ályktum en við sjáum ekki mikið gert.“
Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar segir skýrsluna um forgangsröðun hjálpa til við skipulag en þau hafi ekki nægt fjármagn til að fylgja henni eftir. „Við fengum hérna þessa skýrslu og þetta náttúrulega bara tónar við það sem við í raun og veru vitum.“
Þurfa 6-7 milljarða en fá 500 milljónir
Pálmi segir áætlað fjármagn til viðhalds ekki duga til að halda í við skemmdir. „Kostnaður bara við holuviðgerðir bara á mínu svæði er búinn að fimmfaldast bara núna á nokkrum árum.“
Kostnaður við brýnustu verkefnin sé um 6 til 7 milljarðar króna. „Á meðan við erum að fá hérna 500 milljónir í þessi verkefni á ári þá náttúrulega komumst við ekkert áfram og þá bara bætast við verkefni á listann frekar en hitt.“
Heimild: Ruv.is