Home Fréttir Í fréttum Stór stuldur í Grindavík

Stór stuldur í Grindavík

115
0
Svona járnamottum var stolið í Grindavík. – Mynd/aðsend

Verðmætu byggingarefni var stolið í Grindavík og segir eigandinn að allt bendi til að þjófarnir hafi farið faglega að stuldinum til að lágmarka ummerki.

<>

Verðmætu byggingarefni var stolið í Grindavík og segir eigandinn að allt bendi til að þjófarnir hafi farið faglega að stuldinum til að lágmarka ummerki.

Jón Pálmar Ragnarsson íbúi í Grindavík komst að því í fyrrakvöld að járnamottum að virði 1,2 milljóna hafði verið stolið af raðhúsalóð við Fálkahlíð þar sem hann hygðist nota til byggingar. Hann segir fyrirferð járnmottanna þannig að ekki sé hlaupið að þvi að flytja þetta burt nema einna helst með kranabíl.

Jón Pálmar telur að þjófnaðurinn hafi verið framinn á bilinu 27. febrúar til 25. mars og birti færslu á íbúasíðu Grindvíkinga. Hann segir þetta ekki eina dæmið um að þjófar fari inn í bæinn.

Jón Pálmar Ragnarsson

Jón Pálmar er ásamt öðrum með byggingafyrirtæki og stóð til að byggja raðhús í bænum.

„Þetta var í búnti, heil 60 stk í stærðinni 2350×5000 mm. 6mm þykkt.

Þannig að það er ekkert hlaupið að þvi að flytja þetta burt nema einna helst með kranabíl,“ segir Jón Pálmar og biður fólk sem hefur mögulega orðið vart til svona búnt í flutningi út úr bænum eða á ferðinni í bænum að láta sig eða lögreglu vita.

Snyrtilega gert
„Ég sá þetta í fyrrakvöld en ekki komið í bæinn í um það bil mánuð. Þetta var komið í önnur verkefni og við ætluðum að flytja þetta á annan stað á höfuðborgarsvæðinu í framkvæmdir þar. Við vorum líka búnir að ráðstafa sölu af hluta járnsins.“

„Þetta var snyrtilega gert og fá eða lítil ummerki. Þeir hafa alveg vitað hvað þeir voru að gera,“ segir Jón Pálmar um þjófana.

Hann segir þetta ekki eina dæmið þar sem íbúar verða varir við þjófa í bænum en samskonar stuldur hefur þó ekki áður komið upp.

Hvort hann hafi áhyggjur enda með meira byggingarefni í bænum segir Jón Pálmar: „Jú satt að segja hef ég það, eftir þetta.“

Tveir voru í haldi lögreglu í Reykjanesbæ í nótt vegna gruns um stuld. Ekki er meira vitað um málið að svo stöddu.

Heimild: Ruv.is