Home Fréttir Í fréttum Grind­víkingar þrýsta á húsnæðismarkað

Grind­víkingar þrýsta á húsnæðismarkað

38
0
Reykjanesbær. Mikil hækkun hefur verið á húsnæðisverði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins síðustu mánuði. EGILL AÐALSTEINSSON

Ný vísitala íbúðaverðs bendir til skarprar verðhækkunar á íbúðum í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Talið er að íbúðakaup Grindvíkinga séu helstu áhrifavaldurinn, og að áhrifin gætu orðið meiri á næstu mánuðum.

<>

Í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kemur fram að íbúðamarkaðurinn í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hafi tekið kipp í febrúar með miklum verðhækkunum og mikilli fjölgun kaupsamninga. HMS telur að áhrifin megi rekja til íbúðakaupa Grindvíkinga.

HMS tilkynnti í gær að vísitala íbúðaverðs um land allt hafi hækkað um 1,9 prósent milli mánaða í febrúar og hafi hækkað um 5,7 prósent á síðustu tólf mánuðum.

Verðhækkun á fjölbýlishúsum vó þar þungt, en undirvísitala fjölbýlishúsa á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,1 prósent milli mánaða en á landsbyggðinni hækkaði hún um 6,4 prósent.

Langmesta hækkunin er í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, en þar hækkaði meðalverð á seldri íbúð úr 61,6 milljónum króna í janúar í tæpar 65 milljónir króna í febrúar.

Einnig var gífurleg hækkun á sérbýlishúsum á svæðinu, en meðalkaupverð þeirra hefur hækkað úr 68 milljónum króna í nóvember 2023 í tæpar 80 milljónir króna í febrúar 2024.

Meðalkaupverð íbúða í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins síðastliðin sjö ár.
TEKIN AF VEF HMS.

Kaupsamningum fjölgar og veltan eykst
Fjöldi kaupsamninga sem gerðir voru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins rúmlega tvöfaldaðist á milli mánaða í janúar og febrúar, en 74 kaupsamningar voru gerðir í janúar og 164 í febrúar.

Þeim fjölgaði einnig á höfuðborgarsvæðinu en þar fóru þeir úr 332 í janúar í 491 í febrúar. Veltan á íbúðamarkaði jókst töluvert milli mánaða í febrúar, en hún hefur ekki aukist jafnmikið milli mánaða á svæðinu frá upphafi mælinga HMS í janúar 2014.

Heimild: Visir.is