Home Fréttir Í fréttum „Ekki unnt að réttlæta slík fjárútlát til listaverkakaupa“

„Ekki unnt að réttlæta slík fjárútlát til listaverkakaupa“

92
0
Hinu opinbera væri skylt að fjárfesta í listaverkum fyrir nýja Landspítalann fyrir að lágmarki 2,1 milljarð samkvæmt lögunum. Ljósmynd: Haraldur Jónasson

Að óbreyttu verður hinu opinbera skylt að fjárfesta í listaverkum fyrir að lágmarki 2,1 milljarð vegna Nýja Landspítalan.

<>

Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þau Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Diljá Mist Einarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Njáll Trausti Friðbertsson, hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á ákvæði myndlistarlaga sem snýr að framlagi til listaverka í nýbyggingum.

Samkvæmt 14. grein laganna er hinu opinbera skylt að verja að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar. Í frumvarpinu er lagt til að sú grein falli brott.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að heildarbyggingarkostnaður nýbygginga geti verið mjög hár og er nefnt sem dæmi að áætlaður heildarbyggingarkostnaður nýs Landspítala sé 210 milljarðar króna. Í því tilviki yrði hinu opinbera skylt að fjárfesta í listaverkum fyrir að lágmarki 2,1 milljarð.

„Að mati flutningsmanna er ekki unnt að réttlæta slík fjárútlát til listaverkakaupa fyrir eina byggingu,“ segir í greinargerðinni.

Þar fyrir utan séu kaup á listaverkum í eðli sínu mjög frábrugðin hefðbundnum fjárútlátum hins opinbera vegna nýbygginga, þar sem þau hafi hvorki áhrif á notkunarmöguleika né starfsemi auk þess sem gæðin eru byggð á huglægu mati.

Ekki sé ekki tilefni til að binda hendur hins opinbera hvað listaverkakaup varða heldur sé eðlilegt að við slíkar ákvarðanir sé litið til starfsemi og eðlis byggingar, sem og stöðu ríkisfjármála að hverju sinni.

„Þegar um fjárfestingu sem grundvallast á slíku mati er að ræða er það álit flutningsmanna að óeðlilegt sé að miða við tiltekna lágmarksfjárhæð, að hinu opinbera sé skylt að verja einhverri fyrir fram ákveðinni upphæð, óháð þörfum nýbyggingarinnar og gæðum hins keypta. Fjárfesting af þessum toga samræmist illa kröfum laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, um hagkvæma opinbera fjárstjórn, þar sem hinu opinbera getur í reynd verið skylt að velja óhagkvæmasta kostinn til þess að uppfylla skilyrði 14. gr. myndlistarlaga um lágmarksfjárútlát.“

Heimild: Vb.is