Home Fréttir Í fréttum Rúmlega 22 milljarða gjaldþrot hjá fjölskyldufélagi fyrrverandi eigenda Húsasmiðjunnar

Rúmlega 22 milljarða gjaldþrot hjá fjölskyldufélagi fyrrverandi eigenda Húsasmiðjunnar

309
0
Mynd: RÚV – Ragnar Visage

Skiptum er lokið í Eignarhaldsfélaginu RS, átta árum eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Lýstar kröfur námu nærri 22,5 milljörðum. Félagið var í eigu bræðra sem oftast voru kenndir við Húsasmiðjuna.

<>

Skiptum er lokið í Eignarhaldsfélagið RS. Það var tekið til gjaldþrotaskipta í október fyrir átta árum og fram kemur í Lögbirtingablaðinu að lýstar kröfur í búið hafi numið tæpum 22,5 milljörðum. Engar eignir fundust.

Samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra var félagið í eigu Jóns Snorrasonar, oftast kenndur við Húsasmiðjuna, og bróður hans, Sturlu Snorrason. Jón stýrði Húsasmiðjunni frá árinu 1984 og þar til að því var breytt úr fjölskyldufyrirtæki í opið hlutafélag árið 2000. Hann var einnig um árabil stjórnarmaður í stjórn Glitnis. Faðir bræðranna stofnaði Húsasmiðjuna árið 1956.

Í síðasta ársreikningi sem skilað var í mars 2014 kom fram að félagið stæði við málaferlum við Glitni og Icebank vegna óuppgerðra viðskiptasamninga. Fram kom að niðurstaðan myndi hafa afgerandi áhrif á stöðu félagsins. Skiptastjóri félagsins segir að félagið hafi átt kröfur á Glitni og Icebank sem ekki fengust greiddar og það hafi riðið baggamuninn.

Félagið tapaði báðum málaferlum sínum fyrir dómi. Því var meðal annars gert að borga Glitni 5,5 milljarða vegna tveggja afleiðusamninga í tengslum við kaup á skuldabréfi í Kaupþingi.

Í dómi Hæstaréttar frá árinu 2014 kemur fram að félagið hafi kosið að veðja á stærsta fjármálafyrirtæki landsins með kaup á skuldabréfi í október 2007.

Forsvarsmaður félagsins er í dómnum sagður hafa lýst því yfir í samtölum við starfsmann Glitnis að hann hefði fulla trú á íslensku bankakerfi og að þetta væri heitasta trade landsins. Ári seinna hafði íslenska ríkið tekið yfir rekstur viðskiptabankana.

Félagið tapaði einnig málinu varðandi viðskiptasamningana við Icebank. Það var með dómi Hæstaréttar dæmt til að greiða SPB hálfan milljarð vegna afleiðuviðskipta. SPB benti á í vörn sinni að Eignarhaldsfélagið RS væri umsvifamikill fjárfestir á alþjóðlegum og innlendum fjármálamörkuðum og hefði átt í umfangsmiklum afleiðuviðskiptum við ýmsa banka.

Fram kom í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall fjármálafyrirtækja að Húsasmiðjan hefði að mörgu leyti verið dæmigerð fyrir þá þróun sem hefði orðið í íslensku atvinnulífi á árunum fyrir hrun. Smærri fjölskyldufyrirtæki hefðu runnið inni í stærri keppinauta sem stefndu á hlutabréfamarkað og uxu, ýmist með yfirtökum eða sameiningum.

Aðeins tveimur árum eftir að Húsasmiðjan var sett á hlutabréfamarkað seldu Jón og Sturla ásamt systur sinni 70 prósent hlutafjár í Húsasmiðjunni til Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar og ónafngreinds fjárfestis sem síðar kom í ljós að var Baugur.

Þremur árum seinna gerði Baugur þeim Árna og Hallbirni tilboð í þeirra hlut sem þeir sögðu að ekki hefði verið hægt að hafna. Árið 2008 misstu eigendurnir félagið í hendurnar á lánadróttnum og Húsasmiðjan er í dag í eigu danska fjölskyldufyrirtækisins Bygma.

Heimild: Ruv.is