Stefnt er að því að byggja rúmlega 50 nýjar íbúðir í Húnaþingi vestra á næstu fimm árum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS, undirrituðu í dag samkomulag um að auka framboð á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu á tímabilinu 2024-2029 og fjármagna uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og félagslegu húsnæði.
Stefnt er að því að byggðar verði rúmlega 50 íbúðir á fimm árum og þar af verði 19 þeirra byggðar án hagnaðarsjónarmiða fyrir fólk undir tilteknum tekju- og eignamörkum.
Þá verða byggðar um 8-12 íbúðir á ári samkvæmt tilkynningu frá HMS.
„Þörfin fyrir hraðari uppbyggingu húsnæðis er mikil um allt land. Það gleður mig að Húnaþing vestra ætli að stórauka uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á næstu árum í sveitarfélaginu,“ segir Sigurður Ingi.
Áformin eru í samræmi við nýstaðfesta húsnæðisáætlun Húnaþings vestra fyrir árið 2024 og ætlar sveitarfélagið að leitast við að tryggja nægjanlegt framboð byggingarhæfra lóða í samræmi við samkomulagið þannig að byggingarhæfar lóðir á næstu árum rúmi 25-35 íbúðir ár hvert.
Heimild: Vb.is