Samþykkt var að auglýsa deiliskipulag fyrir hluta Ártúnshöfða í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í gærmorgun.
Samþykkt var að auglýsa deiliskipulag fyrir hluta Ártúnshöfða í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í gærmorgun, 13. mars, en alls verða tæplega 600 íbúðir á svæðinu.
Svæðið er kennt við Ártúnshöfða 2A og afmarkast af núverandi Ártúnshöfða til austurs, Elliðaám til vesturs, Stórhöfða til suðurs og til norðurs af lóðarmörkum við Sævarhöfða 12.
Í tilkynningu segir að gert verði ráð fyrir íbúðum og blandaðri byggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu. Heildarfjöldi íbúða á skipulagssvæðinu er 582 en svæðið er um 5,48 hektarar að stærð.
Fram kemur einnig að Borgarlínan muni fara eftir Stórhöfða og að Borgarlínustöð verði á svæðinu.
Svæðið sem um ræðir liggur í talsverðum halla og er fyrst og fremst svæði Malbikunarstöðvarinnar en nú eru þarna mikið til malarhaugar og grófgerð iðnaðarmannvirki.
Heimild: Vb.is