Home Fréttir Í fréttum Stórt framkvæmdalán veldur hafnarsjóði Norðurþings vanda

Stórt framkvæmdalán veldur hafnarsjóði Norðurþings vanda

64
0
Víkjandi lán upp á ríflega 800 milljónir króna, sem tekið var vegna stórskipahafnar á Húsavík, stendur í rúmum milljarði í dag. RÚV – Trausti Halldórsson

Miklar skuldir hvíla á hafnarsjóði Norðurþings eftir framkvæmdir í Húsavíkurhöfn á síðasta áratug vegna stóriðju á Bakka. Sveitarstjórn á í viðræðum við ríkið um lán sem nemur í dag um milljarði króna.

<>

Eftir ákvörðun um byggingu kísilvers PCC á Bakka var ráðist í mikla uppbyggingu í Húsavíkurhöfn. Athafnasvæði hafnarinnar var stækkað, viðlegukantar lengdir og höfnin dýpkuð til að geta tekið á móti stórum flutningaskipum.

Lán vegna hafnarframkvæmda stendur í rúmum milljarði
Hafnarsjóður Norðurþings tók þá víkjandi lán upp á ríflega 800 milljónir króna. Ekkert hefur verið greitt af láninu, en það er vísitölutryggt og hækkar stöðugt. „Þetta stendur í dag í rúmum milljarði og við erum í viðræðum við ríkið að endurskoða kjörin á láninu,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings.

Rekstur kísilverksmiðju PCC er enn eina atvinnustarfsemin á Bakka. Verksmiðjan er langstærsti viðskiptavinur Húsavíkurhafnar.
RÚV – Trausti Halldórsson

Engin ný hafnsækin starfsemi á Bakka í augsýn
Forsendur lántökunnar voru hröð uppbygging á Bakka og miklar tekjur af flutningum í höfninni. Áætlað var að verksmiðja PCC tvöfaldaðist fljótlega, auk þess að starfa á fullum afköstum frá byrjun. Þá ríkti bjartsýni um frekari stóriðju á Bakka. „Það hefur ekki orðið. Og nú er skortur á orku og ekki sýnilegt að það séu að koma stór atvinnutækifæri þar sem byggja á hafnsækinni starfsemi. Ekki svona alveg í bili.“

„Þannig að það er eiginlega nauðsynlegt fyrir ykkur að fá þetta lán hreinlega afskrifað?“

„Við sjáum bara til, við sjáum hvað okkur gengur. Við höfum bara verið í góðu samtali við ríkið og höldum því áfram.“

Tap hjá hafnarsjóði þrátt fyrir aukin umsvif á þessu ári
Katrín segir þó aukin umsvif í höfninni á þessu ári og útlit fyrir auknar tekjur. „Við erum núna með PCC verksmiðjuna á Bakka á fullum afköstum. Í fyrra voru þetta hálf afköst, eiginlega allt árið, þannig að það munar mjög mikið um það.“ Þá komi fleiri skemmtiferðaskip en áður og sífellt meiri umferð sé í kringum hvalaskoðun.

Þrátt fyrir batnandi rekstur stefni samt í tap hjá hafnarsjóði. „Það er tap vegna þess að í ártíð eins og núna, þegar verðbólgan er mikil, þá tikka lánin upp og fjármagnsgjöld eru þó nokkuð þung hjá okkur.“

Heimild: Ruv.is