Home Fréttir Í fréttum Vilja íbúakosningar vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga í Snælandshverfi

Vilja íbúakosningar vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga í Snælandshverfi

146
0

„Það má eiginlega segja að það að íbúarnir hafa upplifað það að sjónarmið þeirra hafi ekki verið tekin alvarlega og ekki hlustað á þau í þessu ferli,“ segir Hulda Herjolfsdóttir Skogland, íbúi í Snælandshverfi í Kópavogi og einn af forsvarsmönnum hóps sem fundað hefur vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi bæjarins vegna Furugrundar 3.

<>

Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi á verslun og þjónusta að vera í húsnæði við Furugrund 3. Söluturninn Snæland Video var áður í húsinu en sjoppunni var lokað í september síðastliðnum.

Verktakinn Magni ehf. keypti húsið seinasta sumar og hyggst breyta því þannig að þar verði 2-3 herbergja íbúðir. Til þess að svo verði þarf þó að breyta aðalskipulagi bæjarins en íbúar í Snælandshverfi eru vægast sagt ósáttir við þessi áform.

Gjá myndast á milli íbúa og kjörinna fulltrúa
Haldinn var fjölmennur íbúafundur vegna málsins í nóvember í fyrra og undirskriftasöfnun sett af til að mótmæla breytingunum. Í kjölfarið var svo samráðshópur settur á laggirnar en Hulda segir að íbúarnir upplifi einfaldlega að um sýndarsamráð sé að ræða.

„Það voru 500 manns sem skrifuðu undir undirskriftalistann og fjölmargir sem sendu inn athugasemdir. Þeim athugasemdum hefur hins vegar ekki verið svarað né heldur áhyggjum eða ábendingum íbúa varðandi áhrif þessara breytinga á hverfið. Við upplifum það einfaldlega sem svo að það hafi myndast gjá á milli íbúanna og fulltrúa í skipulagsnefnd og bæjarstjórn Kópavogs,“ segir Hulda.

Íbúarnir hafa í ferlinu meðal annars bent á þröngan húsakost leikskólans Furugrundar og enga eldunaraðstöðu í Snælandsskóla. Þeir vilja að bærinn athugi hvort ekki megi nýta húsnæðið í þágu skólanna, frístundaheimilis og/eða félagsmiðstöðvar sem allt er steinsnar frá Furugrund 3.

 „Getum ekki séð að samtalið sé á báða vegu“
„Það er talað um samráð og samtal og farið fögrum orðum um það en við getum ekki séð að samtalið sé á báða vegu eða að það sé hlustað á okkar sjónarmið og hugmyndir og ábendingar kannaðar til hlítar. Þegar við bendum á þröngan húsakost leikskólans eða mikinn bílastæðaskort er okkur bara svarað með orðunum „Nei, þetta er ekki rétt.“ Þetta er sagt við okkur sem búum hérna og upplifum til dæmis reglulega hversu erfitt er að fá bílastæði inni í hverfinu.“

Hulda segir íbúana nú komna á það að það eigi einfaldlega að halda íbúakosningar um málið.

„Við viljum að Kópavogsbær taki sér aðra til fyrirmyndar og hafi alvöru samráð en ekki sýndarsamráð við okkur íbúana. Ef að sannur vilji er til að kanna hvað íbúarnir vilja þá á bara að efna til kosninga eða allavega fá einhvern óháðan aðila til að gera skoðanakönnun á meðal íbúanna. Við munum að minnsta kosti halda undirskriftasöfnuninni áfram og jafnvel blása til mótmæla,“ segir Hulda að lokum.

Heimild: Visir.is