Home Fréttir Í fréttum Auglýst eftir hönnuðum þjóðarhallar – á að rísa innan þriggja ára

Auglýst eftir hönnuðum þjóðarhallar – á að rísa innan þriggja ára

36
0
RÚV – Mummi Lú

Félag um byggingu nýrrar þjóðarhallar auglýsir nú eftir hönnuðum. Nýjustu áætlanir gera ráð fyrir að skóflustunga verði tekin næsta sumar og að höllin verði risin 2027 eða 2028.

<>

Forval er hafið fyrir samkeppnisútboð um hönnun og byggingu nýrrar þjóðarhallar. Tilkynnt var um þetta á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar og borgarstjóra í gær.

Umsóknarfrestur er til 7. maí en eftir það verða 3–4 teymi valin í endanlega samkeppni um hönnun og byggingu hallarinnar.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra segir stefnt að því að fyrsta skóflustunga fyrir nýrri höll verði tekin á næsta ári. Stefnt sé að því að höllin verði tekin í notkun 2027 eða 2028.

Nýja höllin verður allt að 19.000 fermetrar að stærð og á að rúma 8.600 áhorfendur á íþróttaleikjum og allt að 12.000 gesti viðburðum.

Jón Arnór Stefánsson. Mynd: RUV

Margfrestuð höll
Ný íþróttahöll í Laugardalnum hefur verið lengi í undirbúningi. Áður var stefnt að því að hún yrði risin 2025, en síðan fallið frá þeim áformum.

Ásmundur Einar segist þó bjartsýnn á að tímaáætlunin standist í þetta sinn.

„Mér finnst þetta mjög raunhæf tímalína. En verkið er stórt og þess vegna er mikilvægt að allir aðilar séu hér saman að fylgja þessu eftir. Það er það sem gleður mig að sé að takast,“ sagði Ásmundur Einar að fundi loknum.

Handknattleikssamband Íslands hefur sótt um að halda riðil og milliriðil á HM í handbolta annaðhvort 2029 eða 2031 og þá er gert ráð fyrir að keppt verði í nýju höllinni.

Jón Arnór Stefánsson, stjórnarformaður Þjóðarhallarinnar ehf., segir það metnaðarfullt markmið en það ætti að nást. „Það er eins gott, ef umsókn okkar verður samþykkt,“ segir hann.

„Það þarf allt að ganga upp en við höfum fulla trú á því að við náum að klára þetta verkefni.“

Heimild: Ruv.is