Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hafnar við náttúruböð í Hveragerði

Framkvæmdir hafnar við náttúruböð í Hveragerði

168
0

Hveragerðisbær og Reykjadalsfélagið hafa samið um viðamikla ferðaþjónustuuppbyggingu á Árhólmasvæðinu í Hveragerði. Samningurinn felur í sér kaup Reykjadalsfélagsins á byggingarrétti og úthlutun lóða ásamt uppbyggingu svæðisins.

<>

Reykjadalsfélagið og Hveragerðisbær hafa síðastliðin ár unnið sameiginlega að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið og kláraðist sú vinna nýverið þar sem gert ráð fyrir breyttri nýtingu þegar stofnaðra lóða auk fjölda nýrra lóða sem skipulagðar eru með starfsemi ferðaþjónustu í huga.

„Samstarfið við Hveragerðisbæ hefur verið frábært og það er mikil ánægja hjá okkur í Reykjadalsfélaginu að hafa náð þessum tímamótasamning. Við erum fullir tilhlökkunar með uppbygginguna framundan,“ segir Brynjólfur J. Baldursson, stjórnarformaður Reykjadalsfélagsins.

Reykjaböðin fullfjármögnuð
Markmið uppbyggingar Árhólmasvæðisins er að skapa fjölbreytta þjónustu fyrir bæði íbúa og þá ferðamenn sem heimsækja svæðið. Umfang uppbyggingarinnar er töluvert mikið og verður því áfangaskipt yfir nokkur ár. Ákveðið hefur verið að fyrsti áfangi uppbyggingarinnar verði náttúruböð sem hafa fengið nafnið Reykjaböðin.

Verkefnið er fullfjármagnað og framkvæmdir hafnar en í byggingu baðanna verða náttúruleg efni í forgrunni og markmið að skapa kósý stemningu fyrir gesti á öllum árstíðum. Baðlónið mun bjóða uppá fjölda nýjunga sem ekki hafa áður sést á Íslandi.

The Greenhouse Hotel mun starfrækja hótel á svæðinu og bjóða uppá öðruvísi hótelupplifun þar sem gestir geta notið sín í notalegum smáhýsum og kofum í faðmi náttúrunnar. Einnig verður byggð upp frekari veitingastarfsemi og góð aðstaða fyrir mismunandi viðburðarhald þar sem mikil áhersla verður lögð á upplifun og að gestir njóti náttúrunnar með aðgangi að margvíslegri afþreyingu og útivist.

Einhugur í bæjarstjórn
Að Reykjadalsfélaginu standa félögin Hveraberg og Dionysus sem eru sömu aðilar og byggðu áfangastaðinn Gróðurhúsið sem stendur í hjarta Hveragerðis og býður upp á margvíslega þjónustu.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar, segir að það hafi verið afar áhugavert að fylgjast með uppbyggingu Reykjadalsfélagsins í Hveragerði á undanförnum árum.

„Við erum ánægð með þennan stóra samning sem verður mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna, atvinnulífið og samfélagið í bænum,“ segir Jóhanna en einhugur var í bæjarstjórn um samninginn og áframhaldandi uppbyggingu Reykjadalsfélagsins í bænum.

Heimild: Sunnlenska.is