Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdatími við nýja akbraut við Egilsstaðaflugvöll tvö ár

Framkvæmdatími við nýja akbraut við Egilsstaðaflugvöll tvö ár

46
0
Mynd: Austurfrett.is

Tvö ár tekur að gera nýja akbraut við flugvöllinn á Egilsstöðum þannig að völlurinn geti tekið við fleiri þotum ef grípa þarf til hans sem varaflugvallar vegna millilandaflugs.

<>

Þetta er meðal þess sem fram kemur í gögnum sem Isavia hefur sent Skipulagsstofnun vegna fyrirspurnar um hvort framkvæmdin þurfi í mat á umhverfisáhrifum.

Til stendur að leggja 970 metra langa akbraut meðfram flugbrautinni. Þar með væri hægt að taka við tíu millilandaþotum í stað fjögurra í dag.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdin taki tvö ár, hið fyrra fari í að fergja svæðið en hið seinna í að leggja yfirborð brautarinnar. Í það þarf um 170 þúsund rúmmetra af efni, sem gert er ráð fyrir að sækja í námur í Mýnes og Selhöfða.

Samkvæmt drögum að samgönguáætlun, sem liggja fyrir Alþingi, eru framkvæmdir fyrirhugaðar á árunum 2026-7 og kosta rúman einn milljarð króna. Hagsmunaaðilar í flugi sem og sveitarstjórnir á Austurlandi hafa þrýst á að framkvæmdum verði flýtt því þörf sé á öflugri varaflugvelli fyrir Keflavík hérlendis. Deiliskipulag svæðisins var klárað árið 2021.

Í erindinu er lauslega gerð grein fyrir helstu umhverfisáhrifum sem framkvæmdin er talin geta haft. Almennt eru þau ekki talin mikil en þó helst þarf að huga að votlendi í námunda við völlinn sem nýtur verndar og er mikilvægt fuglum. Allt varp er utan girðingar.

Auglýsing um athugasemdir við matsskylduna birtist í skipulagsgáttinni í vikunni. Fiskistofa hefur þegar skilað inn sinni umsögn.

Þar kemur fram að akbrautin hafi væntanlega lítil áhrif á vatnalíf þar sem farvegi Eyvindarár verði ekki raskað frekar. Mengunarhætta sé þó alltaf fyrir hendi á rekstrartíma.

Gert er ráð fyrir að Skipulagsstofnun taki ákvörðun um framkvæmdin sé mattskyld innan sjö vikna. Frestur til að senda inn athugasemdir er til 26. mars.

Heimild: Austurfrett.is