Home Í fréttum Niðurstöður útboða Tilboð i tengivirki á Norðausturlandi ríflega 172 milljónum undir kostnaðarverði

Tilboð i tengivirki á Norðausturlandi ríflega 172 milljónum undir kostnaðarverði

399
0

Tilboð sem bárust í þrjú ný tengivirki Landsnets á Norðausturlandi eru samanlagt undir kostnaðarverði sem nemur ríflega 172 milljónum króna. Alls nemur kostnaðaráætlun tengivirkjanna þriggja 1.921,2 milljónir króna en lægstu tilboðin sem bárust hljóða upp á 1.748,6 milljónir, sem er um 91% af áætluðu kostnaðarverði.

<>

Útboðið tók til byggingar þriggja tengivirkja, í Kröflu, á Þeistareykjum og Bakka við Húsavík, en þau eru hluti þeirra nýframkvæmda sem Landsnet er að hefjast handa við á Norðausturland. Nýja tengivirkið í Kröflu, Kröflulína 4 og hluti tengivirkisins á Þeistareykjum munu tengja Þeistareykjavirkjun við meginflutningskerfi Landsnets en tengivirkið á Bakka, Þeistareykjalína 1, ásamt hluta Þeistareykjatengivirkisins munu tengja iðnaðarsvæðið á Bakka við virkjunina.

Tilboð í tengivirkin voru opnuð hjá Landsneti í gær og átti Ístak hf. lægra tilboðið í fyrsta hluta verksins, sem er tengivirki við Kröfluvirkjun og hljóðaði það upp á 542,5 milljónir króna. LNS Saga ehf. og Leonhard Nilsen & Sønner buðu 578,2 milljónir króna en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 459,8 milljónir króna.

LNS Saga ehf. og Leonhard Nilsen & Sønner buðu einir í annan hluta verksins, sem er tengivirki við Þeistareyki. Tilboð þeirra var upp á 576,3 milljónir króna en kostnaðaráætlun þess verkhluta hljóðaði upp á 819,8 milljónir króna.

LNS Saga ehf. og Leonhard Nilsen & Sønner áttu einnig eina tilboðið í þriðja verkhlutann, sem er tengivirki við iðnaðarsvæðið á Bakka. Það hljóðaði upp á 629,8 milljónir króna en kostnaðaráætlunin er upp á 641,6 milljónir króna.

Landsnet mun nú fara yfir tilboðin og bera þau saman. Gengið verður til samninga við þann aðila sem á hagstæðasta tilboðið að því gefnu að hann eða þeir uppfylli kröfur um hæfi.