Home Fréttir Í fréttum Styttist í byggingu nýrrar legudeildar SAk

Styttist í byggingu nýrrar legudeildar SAk

47
0
Rúv – Sölvi Andrason

Hafin er samkeppni um hönnun nýrrar legudeildar við Sjúkrahúsið á Akureyri. Byggingin hefur verið á dagskrá í tæpan áratug. Verkefnistjóri segir verkið komið á fjárlög og vonast til að framkvæmdir hefjist á næsta ári.

<>

Haustið 2022 var stjórnendum Sjúkrahússins á Akureyri veitt formleg heimild til að hefja hönnunarferli 9.200 fermetra byggingar fyrir starfsemi legudeilda.

Niðurstaða úr hönnunarsamkeppni væntanleg í lok maí
Eftir rúmlega eins árs samstarf við Nýjan Landspítala er nú lokið forvali hönnunar og Gunnar Líndal Sigurðsson, verkefnastjóri SAk við nýbygginguna, segir að fimm hönnunarhópar hafi orðið fyrir valinu. „Sem eru þá núna komnir með þarfagreiningu frá okkur í hendurnar og annað til þess að keppa um tillöguna.“

„Þannig að hönnunarsamkeppni þessarar byggingar er þá formlega hafin?“

„Já, hún er farin af stað og við erum að horfa á þetta liggi vonandi fyrir í lok maí á þessu ári.“

Löngu kominn tími á þessar breytingar
Húsið á að rísa sunnan við núverandi byggingar Sjúkrahússins og tengjast þeim. Legudeildir lyf- og skurðlækninga eiga að flytjast þangað ásamt allri geðþjónustu. Gunnar segir fyrir löngu kominn tími á þær breytingar sem verði með tilkomu nýja hússins.

„Sumar af þessum deildum eru búnar að vera í bráðabirgðahúsnæði í mörg ár. Þjónustan er sífellt vaxandi, nýting á legurýmum vaxandi þannig að þetta er bara tímabært. Og er hugsað þannig að við séum að mæta bæði þeirri þörf sem við höfum í dag og nokkur ár fram í tímann og áratugi.“

Vonast til þess að jarðvegsframkvæmdir hefjist á næsta ári
Tillaga um nýbyggingu fyrir legudeildir SAk var kynnt haustið 2015 og þörfin hefur margoft verið ítrekuð síðan þá. Gunnar segist bjartsýnn á að nú verði þetta að veruleika.

„Þetta er náttúrulega komið á fjárlög og komið í þetta ferli. Í framhaldinu erum við þá að vonast til þess að jarðvegsframkvæmdir hefjist hérna á næsta ári. Ef gengur vel og allt eins og við öll viljum, þá erum við að horfa á bygginguna tilbúna í lok árs 2028.“

Heimild: Ruv.is