Hægt verður að byggja um 350 íbúðir á um 10-12 mánaða tímabili í sveitarfélögunum Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum.
Um er að ræða niðurstöðu framkvæmdahóps sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra skipaði í byrjun árs. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Í framkvæmdahópnum sátu fulltrúar innviðaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins, en hlutverk hópsins var að fylgja eftir tillögum fyrri starfshóps, um möguleika á hraðri uppbyggingu húsnæðis vegna afleiðinga náttúruhamfara við Grindavík. Auk þess að vinna að framgangi tillagna hans og fjármögnun þeirra.
Uppbygging á forsendum sveitarfélaganna
Starf framkvæmdahópsins beindist einkum að því að fá yfirsýn yfir framboð lóða fyrir húsnæðisuppbyggingu í sveitarfélögunum Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum. Stöðu uppbyggingar og áform fyrrgreindra sveitarfélaga um uppbyggingu á næstu misserum.
Á grundvelli þessarar vinnu liggur nú fyrir að hægt verði að byggja um 350 íbúðir á um 10-12 mánaða tímabili frá því að framkvæmdir hefjast. Þessi uppbygging er í samræmi við samþykkt deiliskipulög og uppbyggingu innviða á umræddum svæðum sem er langt á veg komin eða lokið, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Uppbyggingin mun fara fram á forsendum sveitarfélaganna. Þar með verður bæði sveitarfélögunum og markaðnum gefinn kostur á að skipuleggja uppbyggingu og framkvæmdir á eigin forsendum þar sem Grindvíkingum sem og öðrum landsmönnum gefst færi á að velja sér búsetu og búsetuúrræði við hæfi.
„Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög taki höndum saman til að hraða framboði á nýju íbúðarhúsnæði sem mætt getur aukinni eftirspurn,“ segir í tilkynningunni.
Heimild: Mbl.is