Home Fréttir Í fréttum Hlakka til að fá loks rafmagn og altari í kirkjuna

Hlakka til að fá loks rafmagn og altari í kirkjuna

31
0
Hjörleifur Stefánsson arkitekt var fenginn til að teikna nýja Miðgarðakirkju og var hönnun hennar unnin í nánu samstarfi við íbúa Grímseyjar. Útlit nýju kirkjunnar mun hafa augljósa skírskotun til þeirrar eldri en verður aðeins stærri m.a. vegna nútíma krafna. Aðsent – Anna María Sigvaldadóttir

Bygging nýrrar Miðgarðakirkju í Grímsey hefur tafist töluvert en eyjaskeggjar láta þó ekki deigann síga. Vonast er til að rafmagn verði lagt í kirkjuna á næstu vikum.

<>

Framkvæmdir eru hafnar á ný við Miðgarðakirkju í Grímsey, en þær töfðust um tæpt ár vegna fjárskorts. Rúm tvö ár eru síðan kirkjan brann til grunna.

Miðgarðakirkja þjónaði Grímseyingum frá árinu 1867 og var friðuð árið 1990. Kirkjan brann svo til grunna á svipstundu, eða á um tuttugu mínútum, í september 2021. Íbúar, sem eru um sextíu talsins, létu strax í ljós að þeir vildu sjá kirkjuna endurreista.

Síðan smíðin hófst hefur þó gengið á ýmsu. Eftir nokkurra mánaða söfnun styrkja frá almenningi og ríkinu hófst byggingin. Síðasta sumar kom svo á daginn að verkið hafði farið langt fram úr kostnaðaráætlun og tæki töluvert lengri tíma en til stóð.

Gengur hægar en vonast var til
Alfreð Garðarsson, formaður sóknarnefndar, segir framkvæmdirnar nú ganga hægt, en örugglega, eftir að vera á ís í tæpt í ár.

„Það er verið að klára að einangra kirkjuna og við vorum að plasta hana í gær. Þegar það er búið fáum við rafvirkja til að koma og leggja rafmagn. Svo er verið að huga að því að fá steinsmið til að ganga frá altarinu,“ segir Alfreð. Altarið verður smíðað úr stuðlabergi svo til verksins þarf að flytja sérstök tæki út í eyju.

Heimamenn hafa leikið lykilhlutverk í framkvæmdunum. Til dæmis kláruðu þeir sjálfir kirkjuþakið eftir að verktaki skildi við það hálfklárað.

Heimamenn eru í þann mund að ljúka við að einangra kirkjuna og gera allt klárt fyrir lagningu rafmagns.
Aðsent – Anna María Sigvaldadóttir

„Menn stökkva í þetta þegar þeir eru búnir á sjónum“
„Það er ennþá eftir smá af skrúðhúsinu. Menn eru að stökkva í þetta bara svona þegar þeir koma heim af sjónum og reyna að gera eitthvað. En við erum komin með smiði núna sem ætla að fara í þetta svona alvöru, fljótlega.“

Alfreð segir enn töluvert langt í land, en er þakklátur stuðningi velviljaðs fólks sem hefur fjármagnað nýja Miðgarðakirkju.

„Við erum búin að fá rosalega marga styrki víða af landinu. Meira að segja frá fólki sem við þekkjum ekkert til. Svo það virðast margir hafa hugsað til okkar.“

Heimild: Ruv.is