Home Fréttir Í fréttum Öflugt starfsfólk hjartað í fyrirtækinu

Öflugt starfsfólk hjartað í fyrirtækinu

70
0
Guðbjörg Sæunn segir ekki nauðsynlegt að gera hlutina alltaf á sama hátt. Ljósmynd: Íris Einarsdóttir

Framkvæmdastjóri Einingaverksmiðjunnar segir mikla nýsköpun hafa átt sér stað innan fyrirtækisins undanfarin ár og áhersla lögð á að allir hafi rödd.

<>

Einingaverksmiðjan fagnar 30 ára afmæli í ár en Guðbjörg Sæunn Friðriksdóttir tók við sem framkvæmdastjóri Einingaverksmiðjunnar í mars 2022, sama ár og fyrirtæki hóf flutninga í Hafnarfjörð.

Hún lýsir því að fyrirtækið hafi náð frábærum árangri þrátt fyrir flutninga. Allir hafi verið meðvitaðir um hvað markmiðið væri og hvert fyrirtækið stefnir.

„Um leið og maður talar um hlutina eins og þeir eru þá getur maður lagað þá. Ef þú nærð ekki markmiðinu, þá er mikilvægt að skoða ástæðuna vel og skilja af hverju,“ segir Guðbjörg Sæunn.

„Við þurfum ekki alltaf að gera hlutina eins og við höfum gert þá, stundum má maður alveg breyta til og prufa nýja hluti og ef það virkar ekki þá má maður líka fara til baka.“

Fyrirtækið sé með skýra sýn og búið að stilla upp stefnu til þriggja ára.

„Markmiðið okkar er að vera leiðandi í forsteyptum lausnum og skapa virði til framtíðar með breiðan hóp af viðskiptavinum, sinna öllum sem koma til okkar. En til þess að það sé hægt þá þarftu að vera með öflugt starfsfólk, það er hjartað í fyrirtækinu,“ segir Guðbjörg Sæunn.

Mikil samheldni sé í teyminu og áhersla lögð á að allir hafi rödd innan fyrirtækisins. Allir skipti jafn miklu máli, þó þeir séu í ólíkum hlutverkum.

„Ég held að um leið og þú finnur að menningin er þannig í fyrirtækinu að þú mátt benda á það sem er hægt að gera betur eða öðruvísi, fólk finnur að það má hafa skoðun, þá gerast bara einhver kraftaverk.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag.

Heimild: Vb.is