Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að bæði sé orðið tímabært og skynsamlegt að ræða uppbyggingu Sundabyggðar.
Hildur skrifar aðsenda grein um málið í Morgunblaðið í dag og rifjar upp að ríki og sveitarfélög hafi á síðasta ári undirritað samkomulag um uppbyggingu 35.000 íbúða hérlendis næstu tíu árin.
Gerir samkomulagið ráð fyrir að borgin byggi 2.000 íbúðir árlega fyrstu fimm árin og 1.200 íbúðir árlega næstu fimm árin þar á eftir. Voru þessi áform viðbragð við viðvarandi húsnæðisskorti sem fyrirsjáanlegur er til framtíðar.
Staðan orðin önnur og verri núna
„Staðan hefur hins vegar tekið nokkrum breytingum með hliðsjón af jarðhræringum á Reykjanesskaga. Ofan á áður þekkta húsnæðisþörf bætist nú bráðavandi Grindvíkinga.
Íbúar sveitarfélagsins bjuggu áður í tæplega 1.200 íbúðum í Grindavík en þurfa nú að leita húsnæðis annars staðar,“ segir Hildur í grein sinni.
Hildur bendir á að á þriðjudag hafi Sjálfstæðisflokkur lagt fram tillögu í borgarstjórn sem byggist á því að fjölga skilgreindum uppbyggingarsvæðum í aðalskipulagi borgarinnar með hliðsjón af eldsumbrotunum á Reykjanesskaga.
„Jarðhræringarnar hafa þegar sett ýmis uppbyggingaráform á stórhöfuðborgarsvæðinu í uppnám. Aukinn þrýstingur hefur skapast á ný svæði og kallar fyrirliggjandi bráðavandi á húsnæðismarkaði á yfirvegað viðbragð og skynsamlega fyrirhyggju.“
Tímabært og skynsamlegt að ræða
Hildur segir að með tillögunni hafi Sjálfstæðisflokkur sett á dagskrá umræðu um Sundabyggð – nýja íbúðarbyggð á svæðum aðliggjandi Sundabraut.
„Mikilvægi Sundabrautar hefur að undanförnu verið undirstrikað. Þegar sú mikilvæga samgöngubót verður að veruleika opnast fjölmörg ný uppbyggingartækifæri á svæðum aðliggjandi brautinni, til dæmis á Kjalarnesi. Hugmyndina er bæði tímabært og skynsamlegt að ræða á þessari stundu,“ segir Hildur.
Hún bendir hins vegar á að meirihluti borgarstjórnar hafi ekki treyst sér til að taka afstöðu til tillögunnar á fundi borgarstjórnar. Var henni þess í stað vísað í nefnd, en Hildur segir að þangað fari almennt allar góðar tillögur til svæfingar.
„Undirliggjandi ástæðan var hin augljósa ósamstaða meirihlutaflokkanna í skipulagsmálum borgarinnar. Þau treysta sér ekki til að standa saman að atkvæðagreiðslum um mikilvæg skipulagsmál, enda er sýn flokkanna á framtíðarskipulag borgarinnar gjörólík. Það er ljóst að svo ósamstæður meirihluti kemur varla nokkru í verk – og undir þeirra stjórn mun ekkert breytast.“
Hildur segir nauðsynlegt að ráðast í kröftuga húsnæðisuppbyggingu um alla borg þar sem ný hverfi eru skipulögð samhliða því að þétta byggð innan hverfa sem hafa til þess svigrúm.
Morgunblaðið ræddi á dögunum við Dr. Bjarna Reynarsson skipulagsfræðing sem sagði að tilefni væri til að endurmeta skipulag á höfuðborgarsvæðinu í ljósi aukinnar eldvirkni suður og austur af svæðinu. Bjarni stýrði meðal annars gerð aðalskipulags Reykjavíkur á árunum 1980 til 2000.
Benti hann á að Geldinganes bjóði upp á um 200 hektara af byggingarlandi sem er álíka stórt svæði og 101 Reykjavík.
Heimild: Dv.is