Home Fréttir Í fréttum Heildarkostnaður við stækkun verknámshúss á of breiðu bili

Heildarkostnaður við stækkun verknámshúss á of breiðu bili

137
0
Mynd: Huni.is

Sveitarstjórn Húnabyggðar er ekki tilbúin að undirrita samning um stækkun verknámshúss Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra þar sem áætlaður kostnaður liggur á of breiðu bili.

<>

Í erindi frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, sem tekið hafa að sér að samræma sjónarmið sveitarfélaga á svæðinu til samningsdraga vegna stækkunarinnar, kemur fram að áætlaður heildarkostnaður án stofnbúnaðar sé á bilinu 637-1.010 milljónir króna, samkvæmt frummati Framkvæmdasýslu ríkisins.

Fram kemur að óvissa á þessu stigi forathugunar sé metin á bilinu 50% til -30%, en heildarkostnaður mun ráðast af tilboðum eða samningum sem gerðir verða um framkvæmdina.

Gert er ráð fyrir að Húnabyggð muni bera 6,97% af kostnaðinum eða á bilinu 44-70 milljónir króna.

Málið var rætt á sveitarstjórnarfundi í vikunni og undrast sveitarstjórn það breiða bil kostnaðar sem áætlað er að af framkvæmdinni hljótist.

Sveitarfélagið geti ekki undirritað samning um stækkun verknámshússins fyrr en nákvæm kostnaðaráætlun liggi fyrir og er Framkvæmdasýslan hvött til að vinna nákvæmari áætlun hið fyrsta.

Heimild: Huni.is