Þorsteinn Arnalds, tölfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), segir endurmat á íbúafjölda landsins hafa áhrif á mat á uppsafnaðri íbúðaþörf til lækkunar. Hins vegar breyti niðurstöðurnar ekki mati HMS á nauðsyn íbúðauppbyggingar næstu ár.
Tilefnið er að Hagstofan hefur endurmetið íbúafjöldann til lækkunar um 14 þúsund manns. Af því leiðir að um 386 þúsund manns búa á Íslandi en ekki tæplega 400 þúsund eins og áður var talið. Ein meginskýringin er að brottfluttir erlendir ríkisborgarar hafa verið vantaldir.

Áætlun HMS um uppsafnaða íbúðaþörf fyrir árin 2019 til 2022 má sjá á grafinu. Nánar tiltekið er þetta íbúðaþarfagreining sem stofnunin vann fyrir stjórnvöld og hagaðila.
Síðasta greiningin var gerð í janúar 2022. Talan fyrir árið 2023 er lausleg áætlun og byggist á því að íbúum hafi fjölgað um 23 þúsund en þá verið byggðar um 6.000 íbúðir. Miðað við að 2,5 búi að jafnaði í íbúð hafi því þurft um 9.000 íbúðir til að mæta eftirspurn vegna íbúafjölgunar, eða um 3.000 fleiri en byggðar voru 2023.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is