Home Fréttir Í fréttum Fagna uppbyggingu Bandaríkjahers hér á landi

Fagna uppbyggingu Bandaríkjahers hér á landi

113
0
Mynd: RÚV

Bandaríkjaher hefði aldrei átt að yfirgefa herstöðina á Íslandi. Þetta segir Jerry Hendrix, fyrrverandi skipherra hjá bandaríska sjóhernum og nú ráðgjafi hjá Center for a New American Security, CNAS. „Þeim fjármunum sem verður varið í að endurhanna flugskýli í Keflavík undir P-8 Poseidon-vélar Bandaríkjahers er vel varið,“ segir Carl Hvenmark Nilsson, ráðgjafi í Washington.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nokkuð ítarlegri umfjöllun bandaríska blaðsins Christian Science Monitor um „endurkomu“ Bandaríkjahers hingað til lands. Þar er rætt við nokkra sérfræðinga á sviði öryggis – og alþjóðamála hjá stofnunum í Washington og Kanada.

<>

Fram hefur komið í fjölmiðlum að bandaríski herinn hafi óskað eftir 2,7 milljörðum króna til að breyta gömlum flugskýlum á Keflavíkurflugvelli svo þau geti hýst P-8 Poseidon flugvélar hersins. Utanríkisráðherra hefur þó sagt að ekkert hafi verið rætt um fasta viðveru hersins eins og var fyrir tíu árum. „Þarna er einfaldlega verið að tala um að gera nauðsynlegar breytingar á flugskýlum svo að nýrri vélar geti komið og fengið viðhald og slíkt,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson um miðjan síðasta mánuð.

John Higginbotham, sérfræðingur CIGI í Kanada, er einn þeirra sem Christian Science Monitor ræðir við. Hann telur að bandarísk stjórnvöld hafi ekki viljað ögra Rússum of mikið með því að opna herstöðina á Íslandi á ný. „En þetta fjölgar vissulega möguleikum þeirra.“

Carl Hvenmark Nilsson, ráðgjafi hjá CSIS-stofnuninni í Washington, segir mjög mikilvægt fyrir Bandaríkjaher og NATO-ríkin að hafa „augu og eyru til staðar á Íslandi“ því það geri þeim kleift að fylgjast betur með rússneska hernum sem hafi aukið umsvif sín á Norðurslóðum.

Nilsson bætir því jafnframt við að hann telji þá fjármuni sem bandaríkjaher ætli að nota hér á landi verði vel varið varið. „Þetta sendir skýr skilaboð til Kreml,“ segir Nilsson.

Jerry Hendrix, fyrrverandi skipherra hjá bandaríska sjóhernum, segir í samtali við Christian Science Monitor að bandaríski herinn hafi aldrei átt að yfirgefa Ísland. Og hann bendir á að siglingar rússneskra kafbáta geti haft skaðleg áhrif á lönd beggja vegna Atlantshafsins.

Heimild: Ruv.is