Home Fréttir Í fréttum Nokkur atriði um Fossvogsbrú

Nokkur atriði um Fossvogsbrú

111
0
Mynd: EFLA og BEAM

Vegagerðin hélt utan um hönnunarsamkeppni fyrir hönd samstarfsaðila.

<>

Í aðsendri grein á visir.is fer Björn  Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggðar, hörðum orðum um Vegagerðina. Fossvogsbrú er meðal annars til umfjöllunar en mikilvægt er að benda á nokkur atriði þar að lútandi.

Haldin var hönnunarsamkeppni um Fossvogsbrú í byrjun árs 2021. Að keppninni stóðu Reykjavíkurborg, Kópavogsbær og Vegagerðin.

Ákveðið var að fara í hönnunarsamkeppni þar sem staðsetningin yfir Fossvog er einstök á höfuðborgarsvæðinu og jafnframt mikill vilji hjá sveitarfélögunum að þar rísi mannvirki sem fegri umhverfið um leið og það þjónar íbúum sem lykilsamgöngumannvirki fyrir gangandi og hjólandi og umferð Borgarlínunnar.

Vegna staðsetningar brúarinnar er mjög líklegt að hún verði áberandi kennileiti á höfuðborgarsvæðinu.

Sú ákvörðun að fara í hönnunarsamkeppni var ekki tekin af Vegagerðinni heldur sveitarfélögunum, en það er t.d. stefna sem Reykjavíkurborg hefur tekið varðandi flest stærri verkefni sem snerta borgina og má í því sambandi nefna samkeppni um skipulag Keldnalands. Vegagerðin fékk hins vegar það hlutverk að koma samkeppninni í framkvæmd fyrir hönd samstarfsaðilanna.

Fossvogsbrú er af allt öðrum toga en hefðbundnar brýr. Á henni er pláss fyrir þrjá mismunandi ferðarmáta, það er gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur.

Brúin er því töluvert breiðari en hefðbundin akstursbrú enda með 5 akreinar, eða allt að 17 metrar þar sem hún er breiðust. Hefðbundnar, nýlegar og nýjar brýr, svo sem Þorskafjarðarbrú, eru að jafnaði um 10 metra breiðar með tveimur akreinum. Fossvogsbrú er því óhefðbundin, enda  hönnunarverk á áberandi stað á höfuðborgarsvæðinu.

Einnig eru gerðar aðrar og meiri kröfur vegna framkvæmda við byggingu brúarinnar vegna nálægðar hennar við Reykjavíkurflugvöll en þar spila öryggismál flugvallarins stóran þátt

Upphafleg kostnaðaráætlun sem fylgdi brúnni í hönnunarsamkeppni hljóðaði upp á rúmlega 4,1 milljarð sem eru rúmir 5 milljarðar að núvirði. Þar sem að hönnunarsamkeppnin var leynileg var þessi áætlun ekki unnin í samráði við Vegagerðina eða aðra.

Þátttakendur í keppinni gátu hvorki stuðst við jarðfræðirannsóknir né leitað til hagaðila við gerð kostnaðarmats vegna nafnleyndar. Kostnaðaráætlun var því á algeru frumstigi, líkt og verkefnið sjálft á þeim tíma.

Fjármögnun brúarinnar er í gegnum samgöngusáttmála sem gerður var milli ríkisins, Reykjavíkur, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness árið 2019. Brúin er því ekki á samgönguáætlun líkt og flestar aðrar brýr á vegum Vegagerðarinnar.

Vegagerðin er ekki eigandi og veghaldari fyrirhugaðrar brúar og er því aðeins framkvæmdaaðili að þessu tiltekna verkefni Samgöngusáttmála. Betri Samgöngur bera ábyrgð á að tryggja brautargengi á verkefnum Samgöngusáttmálans í samráði við veghaldara vegarins og viðkomandi sveitarfélag.

Ákvörðun um að halda áfram með vinningstillöguna er því ákvörðun stjórnar Betri samgangna og þeirra sveitarfélaga sem fara með veghald á brúnni.

Fjárveitingar til samgöngumála byggja á fjárlögum hvers árs og fjármálaáætlun sem nær til 5 ára. Forgangsröðun verkefna á sviði samgöngumála og fjárveitingar kemur fram í samgönguáætlun á hverjum tíma.

Tillaga að samgönguáætlun er unnin af innviðaráðuneytinu og stofnunum þess en er lögð fram af innviðaráðherra sem þingsályktun á Alþingi þar sem tillagan fær umfjöllun á Alþingi og í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins og er svo samþykkt.

Fjölmargar umsagnir sveitarfélaga, landshlutasamtaka og annarra hagsmunaðila hafa borist bæði þegar samgönguáætlun var til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda sumarið 2023 og svo eftir að hún var lögð fyrir Alþingi og geta haft áhrif á endanlega niðurstöðu.

Samgöngusáttmálinn er ekki fjármagnaður af þeim ramma og hefur því ekki áhrif á forgangsröðun vegaframkvæmda/fjármuna í samgönguáætlun. Framlög til samgöngusáttmála eru til Betri samgangna og byggja á fjárheimildum frá ríkinu og sveitarfélögum sem standa að samgöngusáttmálanum.

Heimild: Vegagerdin.is