Home Fréttir Í fréttum Vatn farið að streyma í heita­vatns­tanka á Fitjum

Vatn farið að streyma í heita­vatns­tanka á Fitjum

81
0
Lokið var við að sjóða alla lögnina saman um eittleytið í nótt. HS ORKA

Framkvæmdir við nýja hjáveitulögn Njarðvíkuræðarinnar gengu vonum framar í nótt og vatn er nú tekið að streyma inn í heitavatnstanka HS Orku á Fitjum.

<>

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HS Orku. Þar segir að lokið hafi verið við að sjóða alla lögnina saman um eitt í nótt. Þá hafi hún verið dregin með einni jarðýtu eftir hraunslóðanum sem liggi þvert yfir hraunið.

„Tengistykki til endanna voru þegar fullsmíðuð og tilbúin til áfestingar og voru þau komin á sinn stað upp úr klukkan þrjú í nótt.

Þá hófst vinna við að setja heitavatnsframleiðslu í orkuverinu í Svartsengi af stað og hleypa vatni varlega á lögnina. Hópur manna ók meðfram lögninni á meðan á því stóð til að botntæma og lofttæma lögnina og tryggja óheft rennsli. Á sama tíma stýrðu starfsmenn HS Orku í stjórnstöð innstreyminu í lögnina til að forðast loftmyndun og óeðlilega hitaþennslu á lögninni.

Allt hefur gengið að óskum og nú streymir vatn frá orkuverinu inn í heitavatnstanka HS Orku á Fitjum,“ segir í tilkynningunni.

HS ORKA

Ennfremur segir í tilkynningunni að þökk sé góðu skipulagi og vinnu öflugs fólks hafi verið tryggt að heitt vatn komist vonandi á öll hús á Suðurnesjum á allra næstu dögum.

HS ORKA

Njarðvíkurlögnin frá Svartsengi eyðilagðist þegar hraun flæddi yfir hana síðastliðinn fimmtudag þegar gos hófst norðaustan Sýlingarfells.

Heimild: Visir.is