Home Fréttir Í fréttum Fjallvegur þarfnist viðhalds því langt sé í jarðgöng

Fjallvegur þarfnist viðhalds því langt sé í jarðgöng

94
0
Mynd: RÚV

Slæmt ástand á fjallvegum milli byggðakjarna hamlar því að Vesturbyggð geti talist eitt atvinnusvæði, segir sveitarstjóri. Svæðisstjóri Vegagerðarinnar segir viðhald dýrt en aðkallandi.

<>

Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á vestursvæði, segir Mikladal, veginn milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar þarfnast viðhalds. „Hann er mjór og það eru brattir fláar niður og brattar brekkur og svo í ofanálag þá er ástandið á honum sem slíkt ekki gott.“

Vegagerðin er að leggja lokahönd á endurgerð vegarins á fimm kílómetra kafla. „Þetta er vegur sem bara hrundi, var bara orðinn ónýtur.“ Vegurinn hafi verið lagður þegar aðrar kröfur voru gerðar til vegagerðar. Ekki dugi að styrkja hann, heldur þurfi að leggja hann upp á nýtt. „Þar erum við bara að tala um að kílómeterinn er að kosta einhverjar 130-150 milljónir.

skjáskot – skjáskot af facebook.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Vesturbyggðar kallar eftir jarðgöngum en Suðurfjarðagöng eru ekki í forgangi í jarðgangaáætlun. Samkvæmt samgönguáætlun eru göng í öðrum landshlutum ofar á lista og innan Vestfjarða séu göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur í meiri forgangi.

Pálmi segir jarðgöng í raun eina framtíðarkostinn ef tryggja eigi samgöngur innan sveitarfélagsins allt árið. „En það er náttúrulega langt í þau og við getum ekki beðið með áframhaldandi viðhald á veginum þangað til jarðgöngin verði klár.“

Starfsfólk Vegagerðarinnar bregðist við þegar vegir séu orðnir hættulegir. Neyðartilvik eins og endurgerð vegarins um Mikladal hafi þá neikvæð áhrif á önnur viðhaldsverkefni. „Eins og bara þessi fimm kílómetra kafli á Mikladal,“ segir Pálmi. „Hann er í raun að taka stóran hluta af styrkingarfjárveitingum á tveimur árum hjá okkur.“

Á veturna eru miklir þungaflutningar um veginn, meðal annars frá laxeldi á Bíldudal. Pálmi segir lítið spennandi að keyra vörubíl yfir Mikladal í vetraraðstæðum.

Heimild: Ruv.is