Home Fréttir Í fréttum Alltaf aðlaðandi búsetukostur

Alltaf aðlaðandi búsetukostur

112
0
Gert er ráð fyrir allt að 1100 íbúðum í nýju Móahverfi. Ljósmynd: Aðsend mynd

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Akureyri undanfarin ár samhliða auknum íbúafjölda að sögn bæjarstjóra. Á komandi árum munu gömul hverfi stækka og ný hverfi rísa.

<>

Íbúum á Akureyri hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum en íbúafjöldinn fór í fyrsta sinn yfir 20 þúsund í fyrra. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrabæjar, segir mikla uppbyggingu hafa átt sér stað á síðastliðnum árum.

„Við finnum bara fyrir því hvað Akureyri þykir áhugaverður búsetukostur. Fjölgunin er yfirleitt hæg en stöðug hjá okkur en það hefur verið svona smá kippur undanfarin ár. Svo er Akureyri alltaf vinsæll fjárfestingarkostur hjá aðilum sem vilja eiga auka heimili eða eru að nýta húsnæðið sem frístundaíbúð auk þess sem mörg félagasamtök eiga íbúðir í bænum.“

Aukinn íbúafjöldi hefur eðli málsins samkvæmt kallað á aukið framboð fasteigna og uppbyggingu innviða á Akureyri en Ásthildur segir ýmislegt í gangi um þessar mundir. Alls eru um 300 íbúðir í byggingu og fleiri væntanlegar.

Framkvæmdir hófust á nýjum íbúðarhúsalóðum í Holtahverfi norður sumarið 2022 og eru nú í fullum gangi. Í heild er gert ráð fyrir rúmlega 300 íbúðum á svæðinu og gera má ráð fyrir að uppbyggingu verði lokið á árunum 2025-2026.

Næsta stóra hverfi sem fer í uppbyggingu er síðan Móahverfi. Þegar er búið að úthluta lóðum fyrir allt að 270 íbúðir en í heild er gert ráð fyrir á bilinu 950-1100 íbúðir í hverfinu fullbyggðu. Miðað er við að fyrstu lóðirnar verði byggingarhæfar vorið 2024 en framkvæmdir við gatnagerð hófust í haust.

Uppbygging fleiri hverfa er þá í vinnslu, þar á meðal er svokallaður tjaldsvæðisreitur. Vinna við gerð deiluskipulags er í fullum gangi en miðað við að íbúðir á svæðinu verði í kringum 200 talsins. Einnig er í gangi vinna við einstaka þéttingareiti. Nýlega hófst uppbygging um 50 íbúða lóð í Skarðshlíð og er verið að skoða uppbyggingu á ýmsum öðrum reitum, stórum og smáum, á Oddeyri, í miðbænum og fleiri svæðum innan núverandi byggðar.

Heimild: Vb.is