Home Fréttir Í fréttum Byggð í Gunnarshólma ætlað að bregðast við ört stækkandi hópi aldraðra

Byggð í Gunnarshólma ætlað að bregðast við ört stækkandi hópi aldraðra

85
0
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs. RÚV – Eggert Þór Jónsson

Bæjarstjóri Kópavogs segir viljayfirlýsingu um í uppbyggingu Gunnarshólma ekki bindandi. Hún telur þó nauðsynlegt að skoða uppbyggingu fjölbreyttari búsetumöguleika og hjúkrunarrými til að koma til móts við aldraða í landinu.

<>

Meirihlutinn í Kópavogsbæ sendi nýverið frá sér viljayfirlýsingu um uppbyggingu fimm þúsund íbúða á jörðinni Gunnarshólma. Jörðin er á vatnsverndarsvæði og ekki gert ráð fyrir þéttbýli þar samkvæmt svæðisskipulagi. Minnihlutinn í Kópavogi telur mögulegt að íbúar svæðisins komi til með að einangrast ef áform fá fram að ganga.

„Ég vil byrja á því að segja að ég fagna lýðræðislegri umræðu og í raun má segja gagnvart Kópavogsbæ að hér er ekki um bindandi yfirlýsingu að ræða. Heldur erum við að lýsa yfir vilja að skoða möguleika sem felast í uppbyggingu á þessu svæði,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs sem tekur fram að nú taki við skipulagsvinna og samráð sem hún segir að enginn afsláttur verði gefinn af.

Nauðsynlegt að horfa til framtíðar
Hugmyndin er að ráðast í umfangsmikla uppbyggingu íbúðar- og þjónustukjarna fyrir sextíu ára og eldri í Gunnarshólma. Þar yrði lífsgæðakjarni fyrir 60 ára og eldri. Íbúðahverfið yrði með búsetuíbúðaformi og þar yrði líka gert ráð fyrir tólf hundruð hjúkrunarrýmum, heilsuhúsi og nýsköpunarmiðstöð.

Ásdís segir það nauðsynlegt fyrir pólitískt kjörna fulltrúa að horfa til framtíðar. „Að við komum með lausnir til mæta ekki bara húsnæðisskortinum sem blasir við á höfuðborgarsvæðinu heldur líka að mæta þeim áskorunum sem felast í öldrun þjóðarinnar,“ segir hún.

Áform um byggingu í Gunnarshólma hafa verið gagnrýnd meðal annars af Theódóru S. Þorsteinsdóttur, oddvita Viðreisnar í Kópavogi. Theódóra telur undarlegt að horfa til uppbyggingar utan vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins þegar nægilegt pláss sé innan þeirra fyrir slík verkefni. Möguleiki sé að byggðin verði einangruð sem væri slæmt fyrir eldra fólk kemur til með að búa á svæðinu.

Ásdís telur að fjarlægð frá annarri byggð sé ekki vandamál ef horft er á önnur verkefni sem eru fram undan í Reykjavík.

„Ég verð að segja eins og er að mér finnst fjarlægðin vera hvað veikustu rökin í þessu þar sem ef horft er út frá staðsetningunni þá er vissulega rétt að svæðið er utan vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins. Ef við horfum til að mynda á Hólmsheiðina þar sem Reykjavíkurborg er að hefja mikla uppbyggingu þá er þetta í fimm mínútna fjarlægð frá Hólmsheiðinni og tíu mínútna akstursfjarlægð frá Norðlingaholti,“ segir hún.

Ásdís telur að gagnrýni Theódóru sé ekki til þess fólgin að leysa málefni aldraðra.

„Það sem kemur mér á óvart í gagnrýni frá bæjarfulltrúa Viðreisnar í Kópavogi er að það verið í raun að útiloka að skoða málið ítarlega og í raun ekki verið að koma með neinar raunhæfar lausnir,“ segir hún.

Byggðin í Gunnarshólma kemur til með að rísa innan vatnsverndarsvæðis

Forsendur vaxtamarka brostnar
Aðspurð segir Ásdís að þrátt fyrir skipulagstakmarkanir og þau verndarsjónarmið sem hafa þarf í huga, telji meirihlutinn að raunverulegur möguleiki sé á byggð í Gunnarshólma

„Já að sjálfsögðu teljum við það annars værum við ekki að koma út með þessa viljayfirlýsingu og skoða þennan valkost. En við erum hins vegar mjög skýr með það að forsenda þess að það verði unnt að byggja á þessu svæði eru að það verði horft til vatnsverndarinnar og við munum aldrei ógna því. Það er sú vinna sem er fram undan. Að huga að umhverfis- og vatnsverndar sjónarmiðum sem og líka að hefja þetta samtal við nágrannasveitarfélögin um að breyta vaxtamörkunum,“ segir Ásdís sem telur nauðsynlegt að fara horfa út fyrir vaxtamörkin þar sem forsendur þeirra séu í raun brostnar.

Jörðin Gunnarshólmi við Suðurlandsveg

„Ef við horfum á þegar vaxtamörkin voru sett þá vorum við með allt aðrar forsendur um fjölgun íbúa á svæðinu. Þessar forsendur eru bara brostnar og við sjáum að við erum ekki að byggja nægjanlega mikið til að mæta íbúðaþörfinni og við erum heldur ekki að byggja næg hjúkrunarrými til að mæta öldrun þjóðar. Ef við horfum á þetta út frá þeim áformum sem eru fram undan þá erum við með þessu að segja að það verði unnt að byggja þarna 5000 íbúðir sem og 1200 hjúkrunarrými,“ segir hún.

„Ef við setjum þetta í samhengi til næstu 15 ára þá blasir við að það þurfi að byggja 2400 hjúkrunarrými. Þannig að hér erum við eingöngu að byggja upp í helminginn af þeirri þörf. Það er kannski það samtal sem við þurfum að eiga núna. Miðað við hvar vaxtamörkin eru hvort við getum mætt þessari þörf án þess að stækka vaxtamörkin,“ segir Ásdís sem telur að svo sé ekki.

„Við erum ekki að gera nóg og við þurfum að gera miklu meira. Þess vegna erum við að koma fram með þetta verkefni og kanna hvort það sé möguleiki að byggja á þessu svæði,“ segir Ásdís að lokum.

Heimild: Ruv.is