Home Fréttir Í fréttum Bjóða út framkvæmdir fyrir ríflega 200 milljarða króna

Bjóða út framkvæmdir fyrir ríflega 200 milljarða króna

126
0
Mynd: RÚV

Opinberir aðilar hafa kynnt að boðnar verði út verklegar framkvæmdir fyrir meira en tvö hundruð milljarða króna á þessu ári. Á sama tíma greindi Hagstofan frá minnkandi verðbólgu, sem mælist nú 6,7 prósent.

<>

Opinberir verkkaupar boða ríflega tvöföldun í útboðum framkvæmda, gangi áætlanir eftir. Fyrirhuguð útboð nema 204 milljörðum króna en voru 89 milljarðar í fyrra.

„Ég held að við höfum aldrei séð hærri tölur en í ár,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Í fyrsta skipti í langan tíma lækkar vísitala neysluverðs milli mánaða. Eftir harðar aðhaldsaðgerðir Seðlabankans mælist verðbólga nú 6,7% og hefur ekki mælst minni síðan í mars 2022. Á sama tíma verða boðnar út framkvæmdir opinberra verkefna fyrir ríflega tvöfalt hærri upphæð en í fyrra.

Hvernig rímar þetta saman?

„Þessar framkvæmdir koma til vegna þarfar í samfélaginu vegna þess að samfélagið er að vaxa, atvinnugreinar eru að vaxa, ferðaþjónusta, fiskeldi og fleira. Allt þetta kallar á meiri innviði,“ segir Sigurður. „Það mun bíta okkur í skottið ef að við förum ekki í framkvæmdir.“

Ekki nærri öll útboð í fyrra urðu að veruleika
Útboð í fyrra voru langt undir áætlun þess árs, eða 89 milljarðar af 173. Mestu munar þar um virkjanaframkvæmdir Landsvirkjunar sem gengu ekki eftir, og er þar líklega átt við Hvammsvirkjun, en framkvæmdaleyfi fyrir virkjunina var fellt úr gildi í fyrra.

Landsvirkjun áætlar að það verkefni verði boðið út á þessu ári.

Mynd: RÚV

Stærstu útboðin eiga Landsvirkjun, Vegagerðin og Nýr Landspítali, svo Landsnet og Samtök sveitarfélaga. Framkvæmdasýslan, Reykjavíkurborg, Isavia og Rarik boða minni útboð.

Vegagerðin ætlar meðal annars að bjóða út vinnu við Fossvogsbrú.

Framkvæma fyrir 175 milljarða strax á þessu ári
Áætlað er að ráðist verði í opinberar framkvæmdir fyrir 175 milljarða króna sem er 31 milljarði meira en í fyrra. Þar trónir Vegagerðin á toppnum, sem ætlar að verja 32 milljörðum króna í viðhald og nýframkvæmdir.

Heimild: Ruv.is