Home Fréttir Í fréttum Verk­takar sjá fram á met­ár í út­boðum

Verk­takar sjá fram á met­ár í út­boðum

194
0
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í dag. Mynd: SIGURJÓN ÓLASON

Met verður slegið í útboðum verklegra framkvæmda í ár, miðað við þau áform sem kynnt voru á Útboðsþingi í dag. Aðgerðir vegna Grindavíkur gætu þó sett strik í reikninginn en Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að frestun stórframkvæmda gæti orðið ein af mótvægisaðgerðunum.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá Útboðsþingi. Þangað mættu verktakar landsins og vinnuvélaeigendur til að hlýða á fulltrúa opinberra aðila lýsa þeim framkvæmdum sem þeir hyggjast bjóða út í ár.

„Útboðin, það verður væntanlega slegið met á árinu, ef áform ganga eftir. Við erum að sjá töluna í fyrsta sinn fara yfir 200 milljarða,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

„En því til viðbótar verða miklar fjárfestingar á árinu. Talan þar er 175 milljarðar og ég held að við höfum aldrei séð eins háa tölu þar,“ segir Sigurður ennfremur.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Mynd: SIGURJÓN ÓLASON

Þyngst vega útboð Landsvirkjunar á Búrfellslundi og Hvammsvirkjun, útboð vegna nýja Landspítalans og svo Vegagerðin, að því er fram kemur í greiningu Samtaka iðnaðarins.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra taldi upp helstu framkvæmdir í vegagerð; lokaáfangar við tvöföldun Reykjanesbrautar, hringvegur um Hornafjarðarfljót, breikkun Kjalarnesvegar, þar sem akstursstefnur verða aðskildar, áframhaldandi uppbygging Vestfjarðavegar og Norðausturvegur um Brekknaheiði en með þeirri framkvæmd segir hann að verði komið bundið slitlag milli allra þéttbýlisstaða á Norðausturlandi.

Samtök iðnaðarins lýsa sérstökum áhyggjum af uppsafnaðri viðhaldsþörf vegakerfisins sem og stöðu orkumála.

„Og eftir tímabil fyrir nokkrum árum síðan, þar sem var lítið að gert, þá erum við einfaldlega komin í heilmikla skuld, innviðaskuld. Og við erum í raun minnt á þetta reglulega, hvort sem það er vegakerfið, rafmagnið að slá út, vatnsveitan, hitaveitan, orkuöflun og svo framvegis,“ segir Sigurður Hannesson.

Fundarsalurinn á Grand Hótel Reykjavík var þéttsetinn.
Mynd: SIGURJÓN ÓLASON

Aðgerðir vegna Grindavíkur eru stóri óvissuþátturinn, eins og uppkaup húsnæðis.

„Sem kallar auðvitað þá á að Grindvíkingar fara af miklum krafti hér inn á íbúðamarkaðinn,“ segir Sigurður Ingi.

„Við munum þurfa að fara í einhverjar mótvægisaðgerðir. En það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um að fresta neinum stórframkvæmdum á þessum tímapunkti.“

-En það kæmi til greina?

„Það getur verið ein af mótvægisaðgerðunum,“ svarar ráðherrann.

Takmörkuð framleiðslugeta byggingariðnaðarins gæti þurft að beinast að þörf Grindvíkinga.

„Og ef við þurfum að byggja enn fleiri íbúðir, á þessu og næsta ári, til þess að takast á við þennan vanda, þá getur vel verið að menn geti ekki byggt önnur hús á meðan,“ segir Sigurður Ingi.

Heimild: Visir.is