Home Fréttir Í fréttum Suðurnesjalína tvö nánast gulltryggð eftir að kröfu náttúruverndarsamtaka var hafnað

Suðurnesjalína tvö nánast gulltryggð eftir að kröfu náttúruverndarsamtaka var hafnað

48
0
Mynd: RÚV – Ragnar Visage

Kröfu náttúruverndarsamtaka um að fella framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu tvö úr gildi var hafnað. Forstjóri Landsnets segir allt kapp lagt á að hefja framkvæmdir sem fyrst. Mikilvægt sé að raforkuöryggi sé tryggt á Reykjanesi.

<>

Öll framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu tvö eru í höfn og að sögn forstjóra Landsnets er ekkert því til fyrirstöðu að hafist verði handa við að leggja línuna eins fljótt og auðið er. Kröfu náttúruverndarsamtaka um að fella leyfið úr gildi var hafnað.

Lengi hefur verið tekist á um Suðurnesjalínu tvö en bæjarstjórn sveitarfélagsins Voga ákvað í sumar að veita Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir línunni.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nú hafnað kröfu Hraunavina, Landverndar, Landgræðslu- og umhverfisverndarsamtaka Íslands og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands um að fella veitingu framkvæmdaleyfisins úr gildi.

Óska eftir að taka land eignarnámi
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segist reikna með að gulltryggt sé að línan verði lögð.

„Við áttum eftir að semja við þrjá landeigendur. En samningaviðræðum við þá er lokið og við höfum óskað eftir því að land verði tekið eignarnámi. Það mál er bara á borði ráðherra.“

Guðmundur Ingi Ásmundsson. Mynd: RUV

Neyðarréttur er í framkvæmdum ef samningar nást ekki. Guðmundur Ingi segir að það þýði að ein lítil jörð og hluti úr tveimur til viðbótar yrði tekin eignarnámi og greitt yrði fyrir þær eins og jarðirnar sem samningar hafa náðst um.

Vonast til að byrja síðsumars
Landsnet er nú að undirbúa útboð og vonast er til að framkvæmdir geti hafist síðsumars.

„Almennt séð taka svona framkvæmdir tvö ár en við ætlum að reyna að gera þetta á ennþá skemmri tíma, kannski rúmu ári. Þessi lína er gríðarlega mikilvæg miðað við ástandið á Reykjanesi og þess vegna leggjum við allt kapp á að hraða málinu eins og mögulegt er.“

Guðmundur Ingi segir að þótt vonast sé til að upphaf framkvæmda geti orðið síðsumars sé orðið erfitt að fá búnað í háspennumannvirki.

„Sérstaklega eftir stríðið í Úkraínu og svo nú eru náttúrulega framkvæmdir um allan heim út af orkuskiptum og loftslagsmálum. Þar af leiðandi hefur afgreiðslufresturinn lengst. En vonandi tekst okkur vel upp í útboðunum.“

Jarðhræringar hafa mikil áhrif
Guðmundur Ingi segir jarðhræringar og eldsumbrot á Reykjanesskaga hafa haft mikil áhrif á umræðu um raforkuöryggi.

„Sérstaklega á þessi svæði. Við höfum verið að vinna mikla greiningarvinnu með Almannavörnum um raforkukerfið á öllu Reykjanesinu og alveg inn að höfuðborgarsvæðinu. Við erum svona að meta stöðuna þar og hvort það sé hægt að grípa til einhverra ráðstafana til að verja háspennulínurnar og mannvirkin sem þar eru, ef það kemur til eldgosa.“

Hann segir gleðilegt að málið sé nú komið á þennan stað.

„Fyrir okkur er það efst í huga að geta tryggt betra öryggi raforkumála á Reykjanesinu í þeim aðstæðum sem nú eru. Það eru eldsumbrot á svæðinu og gríðarlega mikilvægt að hafa aðgang að öruggu rafmagni eins og kostur er. Þess vegna er þetta fagnaðarerindi hvað okkur varðar, að þetta sé loksins komið í höfn.“

Heimild: Ruv.is